Kallaður heim
Varnarjaxlinn Liam O´Sullivan, sem leikið hefur með Keflavík í Landssímadeildinni í sumar, hélt heim til Skotlands í morgun. Liam var kallaður aftur til Hibernian, þar sem meiðsli eru í leikmannahópi liðsins. Liam hefur verið Keflvíkingum mikill liðsstyrkur í baráttunni í sumar og er það mikill missir fyrir félagið að hann fari, en hann átti að vera hérlendis í láni út sumarið. Keflavík hefur misst fleiri varnarmenn í sumar, en Kristinn Guðbrandsson er hættur hjá félaginu eins og Snorri Már Jónsson. Hjörtur Fjeldsted hefur verið í láni hjá Skallagrími í 1. deildinni í sumar, en hefur verið kallaður heim til Keflavíkur og er nú beðið eftir að hann fái aftur leikheimild með liðinu.