Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Kæri Jóli
Laugardagur 17. desember 2011 kl. 11:14

Kæri Jóli

Það er ekki margt sem ég óska mér þessi jólin kæri Jólasveinn. Ég hef engan áhuga á iphone eða ipad eða i-hvað sem er eins og allir hinir. Ég er ekkert ofsalega mikið fyrir tölvur og tæknidót. Mér er einhverra hluta vegna alveg fyrirmunað að sjá hvers vegna ég verð að eignast svona. Ég fæ í besta falli hausverk af öllu þessu dóti og drasli og ef mér tekst að lokum að skilja hvernig þetta virkar þá er komið eitthvað flottara og betra á markaðinn og ég á strax að uppfæra mig yfir í það. Ég á alveg ágætis tölvu sem ég kann að kveikja og slökkva á takk fyrir.

Ég hef nú fengið misjafnar gjafir frá þér í gegnum árin. Ætli ég hafi ekki verið um 10 ára þegar ég og bróðir minn fengum Nintendo leikjatölvu ásamt Super Mario Bros leik, þvílík snilld! Það var leikjatölva sem ég skildi. Þú ýttir á örvatakkann til að hreyfa Mario og svo A og B takkar til að hoppa og hlaupa hraðar. Það voru ekki fleiri takkar. En ég var líka á svipuðum aldri þegar ég fékk um það bil 50 sokkapör, ekki snilld. Jú, jú, ég átti sokka fyrir næstu 2 árin en mamma keypti hvort sem er sokka fyrir mig. Ef einhver sem les þetta er að spá í að gefa 10 ára strák sokka í jólagjöf, slepptu því, ég er nokkuð viss um að harðfiskur sé betri hugmynd.

Ég hef verið ofsalega stilltur og góður strákur. Ég hef verið duglegur að taka til í herberginu mínu og setja í uppþvottavélina. Einu sinni tók ég meira að segja til og konan mín var ekki búin að biðja mig um það. Ég hef eiginlega ekkert röflað í dómurunum nema stundum, þeir eru líka alltaf á móti okkur. Röfla yfirleitt samt bara við pabba eftir leik, fæ útrás á honum. Svo skamma ég nánast aldrei varnarmennina mína, nema þegar við fáum á okkur mark. Þá er það líka alltaf þeim að kenna. Svo hef ég hlustað þolinmóður á allt bullið frá þjálfurunum mínum þó að ég viti náttúrulega alltaf betur en þeir. Þess á milli hef ég svo almennt verið góður og skemmtilegur við allt og alla, nema sumt og suma.

Það eina sem mig langar í jólagjöf er einn lítill Íslandsmeistaratitill. Strákarnir í hinum liðunum eru alltaf að vinna svoleiðis. Þeir í körfunni hjá Keflavík eiga fullt. Mér finnst ég ekki vera að biðja um mikið Jóli. Ég hefði betur beðið þig um hjálp 2008, þá hefðum við pottþétt unnið. Mig dreymir hann á hverri nóttu síðan þá. Þetta myndi auðvitað ekki bara vera gjöf fyrir mig þó að ég vilji þetta mest fyrir mig. Fullt af fólki hefði alveg ofsalega gaman af einum titli. Þetta er það eina sem ég vil. Jú og kannski ást, frið og hamingju fyrir mig og mína en aðallega Íslandsmeistaratitil takk.

Kær kveðja, þinn vinur í blíðu og stríðu Ómar

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024