Jones og Van til liðs við UMFN
Körfuknattleiksdeild UMFN hefur samið við tvo Bandaríkjamenn um að leika með karlaliði félagsins á komandi tímabili. Þeir Cameron Echols og Travis Holmes sem léku með liðinu síðasta vetur munu ekki snúa aftur í haust en nýju mennirnir eru hugsaðir fyrir baráttuna í teignum. Þeir heita Jonathan Jones og Marcus Van.
Jonathan Jones er 196 cm framherji sem að lék með Kean háskólanum í þriðju deild NCAA háskólaboltans. Hann útskrifaðist vorið 2011 og lauk keppni með 23,9 stig, 13,7 fráköst, og var með tæplega 60% 2ja stiga nýtingu. Hann var í All-America liði þriðju deildarinnar. Jonathan er 23ja ára gamall og er að taka sín fyrstu skref í atvinnumennsku.
Marcus Van er 201 cm miðherji sem að lék með Central Michigan skólanum í 1.deild NCAA en þar var hann einmitt samherji Giordan Watson sem lék með UMFN síðari hluta tímabilsins 2010-2011 og svo með Grindavík sl vetur. Marcus er 27 ára gamall.?Marcus gerði 13,0 stig, tók 8,3 fráköst og varði 1,4 skot á lokaári sínu í skólanum en hann útskrifaðist 2009. Hann kom aðeins við í LEB silfur deildinni á Spáni árið eftir sem og í Pro A í Þýskalandi. Tímabilið 2010-2011 lék hann á Írlandi og var þar með 22,7 stig, reif niður 14,2 fráköst og varði 2,2 skot á leik. Hann var auk þess með rúmlega 68% skotnýtingu.
Leikmennirnir eru væntanlegir á klakann í haust en Domino´s deild karla hefst sunnudaginn 7. október.