Jónas og Nína í liði ársins
Keflvíkingurinn Jónas Guðni Sævarsson hlaut á laugardagskvöld háttvísiverðlaun Mastercard fyrir leik sinn í Landsbankadeildinni í sumar en viðurkenningin var veitt á lokahófi KSÍ. Þá var Jónas einnig valinn í lið ársins í Landsbankadeildinni. Ásta Árnadóttir hlaut háttvísiverðlaunin í kvennaflokki.
Jónas lék alla 18 leikina í sumar með Keflavík og fékk ekki eitt einasta spjald í leikjunum. Einnig varð Jónas bikarmeistari með Keflavík fyrir skemmstu og rúsínan í pylsuendanum hjá Jónasi var boðun í íslenska landsliðið fyrir leikinn gegn Svíum en Jónas kom ekki við sögu í þeim leik.
Viktor Bjarki Arnarson, Víkingi, var valinn leikmaður sumarsins og þá voru stuðningsmenn ÍA valdir bestu stuðningsmennirnir í Landsbankadeild karla. Teitur Þórðarson, þjálfari KR, var valinn besti þjálfarinn í deildinni.
Knattspyrnukonan Nína Ósk Kristinsdóttir, leikmaður Keflavíkur, var valin í lið ársins í Landsbankadeild kvenna en hún var næst markahæst í sumar á eftir Margréti Láru Viðarsdóttur.
VF-myndir/ [email protected]