Jónas nýr fyrirliði Keflvíkinga
Jónas Guðni Sævarsson er nýr fyrirliði Bikarmeistara Keflavíkur í knattspyrnu en Guðmundur Steinarsson óskaði eftir því við Kristján Guðmundsson, þjálfara Keflavíkur, að vera leystur undan starfi fyrirliða.
Kenneth Gustavsson mun taka við varafyrirliðabandinu en Jónas var áður varafyrirliði Keflavíkur á meðan Guðmundur gegndi fyrirliðahlutverkinu. Fram kemur á heimasíðu Keflavíkur að Kristján og Guðmundur hefðu fundað um málið og niðurstaðan hefði orðið þessi. Þá segir ennfremur að engin dramatík búi að baki ákvörðun Guðmundar heldur hafi ákvörðunin væntanlega verið tekin með hag Keflavíkurliðsins að leiðarljósi.
Á sunnudag mættust svo Keflavík og Þróttur í fyrsta leik Lengjubikarsins og þar rigndi inn mörkunum. Keflavík hafði betur 6-4 gegn Gunnari Oddssyni og hans mönnum en Keflavík hafði 2-1 yfir í hálfleik. Magnús Þorsteinsson jafnaði metin í 3-3 en það var svo Einar Örn Einarsson sem fór hamförum í leiknum er hann gerði þrennu fyrir Keflavík í sínum fyrsta alvöru leik með félaginu. Einar gerði síðustu þrjú mörk leiksins á aðeins sex mínútna kafla og stimplaði sig rækilega inn í Keflavíkurliðið.
Næsti leikur Keflavíkur í Lengjubikarnum er laugardaginn 24. febrúar við Breiðablik í Fífunni og hefst kl. 17:00.