Jónas hugsanlega á heimleið
Langar að spila með litla bróður
Keflvíkingar hafa átt í viðræðum við miðjumanninn Jónas Guðna Sævarsson sem lék með Keflvíkingum upp alla yngri flokka og á árunum 2002-2007 með meistaraflokki. Frá þessu er greint á Vísi. Hann hefur síðan leikið með KR og sem atvinnumaður í Svíþjóð.
Jónas sem er fyrrum fyrirliði Keflvíkinga og KR-inga yrði mikill fengur fyrir Keflvíkinga sem leika í 1. deild næsta sumar. Yngsti bróðir Jónasar, Fannar Orri, leikur með Keflavík en hann er 18 ára og þykir mikið efni.
„Ég held að Fannar sé bara stoltur af bróður sínum og líti upp til hans. Auðvitað myndi hann vilja æfa með mér og spila með mér, það er aldrei að vita nema það verði einhvern tímann að veruleika. Það væri gaman að spila með litla bróður. Það kemur í ljós í framtíðinni en ég á eitt ár eftir af samningi mínum við KR.“ Þannig að þú lokar ekkert hurðinni á endurkomu á heimaslóðir? „Maður gerir það aldrei, það er ekki hægt að gera það,“ sagði Jónas í samtali við VF í fyrra. Jónas er samningslaus og samkvæmt frétt Vísis eru Keflvíkingar búnir að ræða við hann á meðan hann hefur gefið öðrum liðum afsvar.