Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Jónas: Ekkert öruggt í bikarnum
Fimmtudagur 28. júní 2007 kl. 13:28

Jónas: Ekkert öruggt í bikarnum

Suðurnesjamenn verða í eldlínunni þegar Keflavík og Þróttur Reykjavík mætast í 16 liða úrslitum í VISA bikarkeppni karla í knattspyrnu þann 11. júlí næstkomandi. Keflvíkingar eiga titil að verja í keppninni en innan raða Þróttar má finna góðkunna menn sem þekkja það að hefja bikarmeistaratitilinn á loft með Keflavík.

 

Þjálfari Þróttar, Gunnar Oddsson, var spilandi þjálfari þegar Keflavík varð Bikarmeistari árið 1997 og þá er sóknarmaðurinn Adolf Sveinsson einnig á mála hjá Þrótturum en hann hefur einnig orðið Bikarmeistari með Keflavík.

 

Fyrirliðinn Jónas Guðni Sævarsson á einnig ljúfar bikarminningar og gerði t.d. eftirminnilegt mark með vinstri fæti í undanúrslitunum gegn Víkingum á Laugardalsvelli í fyrra. Víkurfréttir tóku púlsinn á Jónasi og Gunnari þegar ljóst var að liðin myndu mætast í bikarnum.

 

Jónas Guðni, fyrirliði Keflavíkur:

Það er ekkert öruggt þegar um bikarslag er að ræða en okkur líður vel í Laugardalnum. Þróttur er greinilega með hörkulið en ég veit nú samt ekki mikið um hópinn hjá þeim í ár. Við lentum í basli með þá í bikarnum fyrir tveimur árum en að sjálfsögðu er þetta leikur sem við eigum að taka og mér líst mjög vel á verkefnið.

Ef við spilum okkar leik og náum upp þessari bikarstemmningu sem við erum góðir í þá er ekki spurning hvernig þetta fer. Vissulega er öll pressan á okkur hvað varðar þennan leik en við ráðum vel við hana því við erum með gott lið.

 

Gunnar Oddsson, þjálfari Þróttar:

Þetta verður bæði spennandi og krefjandi verkefni fyrir okkur. Það fer ekkert á milli mála að Keflavík er eitt af heitari liðunum í ár og eiga titil að verja. Þegar maður er í þessum bransa þá getur maður ekki vænst þess að þjálfa alla tíð í heimbænum og þá getur komið upp svona skemmtileg staða, að maður fari að leika gegn sínu gamla félagi.

Keflavík er vel spilandi lið en ég á von á því að við reynum að verjast vel og svo fáum við örugglega nokkrar sóknir gegn þeim og það er um að gera að nýta þær vel. Það tekur vissulega smá pressu af okkur að leika gegn liði í úrvalsdeild í bikarnum en það eru margir leikir framundan hjá okkur áður en kemur að leiknum gegn Keflavík svo bikarleikurinn er nokkuð langt frá í huga mínum þessa stundina.

Það var léttur fiðringur sem kom í mann þegar ég frétti að við myndum mæta Keflavík en ég hef ekki enn getað séð leik með þeim sökum anna en nú fer maður og skoðar þá við fyrsta tækifæri.

 

VF-mynd/ [email protected]Jónas Guðni Sævarsson, fyrirliði Keflavíkur, í höfuðstöðvum KSÍ í dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024