Jón og Borgar í 3. sæti í fyrsta ralli sumarsins
Rallakstursfélagarnir Jón Bjarni Hrólfsson og Borgar Ólafsson höfnuðu í 3. sæti í fyrstu umferð Pirelli mótaraðarinnar í ralli um helgina en þetta var í fyrsta sinn sem þeir kepptu í efsta flokki. Jón og Borgar luku keppni á 30,24 mínútum á nýja bílnum sínum sem er Subaru Impreza STI.
Félagarnir kepptu í 2000cc flokki í fyrra en ákváðu að færa sig upp í grúbbu N sem er stærsti flokkurinn í ralli hérlendis þar sem bílarnir mega ekki vera meiri en 300 hestöfl.
Daníel Sigurðsson og Ásta Sigurðarsdóttir höfnuðu í 1. sæti (28,20 mín) en þeir Óskar Sólmundarson og Valtýr Kristjánsson voru í 2. sæti (30,14 mín). Rallið síðustu helgi var það fyrsta í sumar en gert er ráð fyrir því að næsta keppni fari fram á Snæfellsnesi.
Nánar verður rætt við Jón og Borgar í Víkurfréttum á fimmtudag.