Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Jón Halldór: Við lékum betri vörn
Miðvikudagur 30. janúar 2008 kl. 23:39

Jón Halldór: Við lékum betri vörn

Keflavík er nú á toppi Iceland Express deildar kvenna í körfuknattleik með Grindavík en bæði lið hafa 26 stig á toppnum. Keflavík lagði sterka nýliða KR í Sláturhúsinu í kvöld 97-87 og þrátt fyrir að Monique Martin hafi sett 46 stig á Keflavíkurliðið sagði Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Keflavíkur að sínir leikmenn hefðu leikið frábæra vörn.

 

Monique var sterkasti maður vallarins með 46 stig, 12 fráköst og 3 stolna bolta en þær Pálína Gunnlaugsdóttir, Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir og Hrönn Þorgrímsdóttir skiptust á því að gæta Monique í leiknum og á endanum reyndist það hinni mögnuðu Martin um megn. Skotnýting Martin var undir 50% í teigskotum og þá setti hún aðeins niður eina þriggja stiga körfu í 8 tilraunum en hún gerði engu að síður 17 stig af vítalínunni í 21 tilraun.

 

,,Fyrri hálfleikur var mjög góður hjá báðum liðum, mér fannst við leika fyrri hálfleikinn mjög vel og spila rosalega góða vörn. Í síðari hálfleik fannst mér við ná að halda tökunum á leiknum og við vorum með þægilegt 20 stiga forskot í fjórða leikhluta sem KR náði að saxa aðeins niður á lokasprettinum,” sagði Jón Halldór sæll í bragði í samtali við Víkurfréttir í leikslok.

 

,,Það sem skildi liðin að í kvöld var að við lékum betri vörn en KR. Þær hafa stórkostlegan sóknarmann í Monique Martin en vörnin sem við lékum á hana í dag var frábær þrátt fyrir að hún hafi skorað 46 stig. Hún var alltaf með varnarmann í andlitinu og var örmagna í restina. Martin sýndi það að hún er rosalega góð í körfubolta og ég get ekki annað en borið virðingu fyrir henni. Þær Pálína, Ingibjör og Hrönn voru henni til varnar í kvöld og TaKesha Watson hélt Hildi Sigurðardóttur í 4 stigum,” sagði Jón sem nú þegar er orðinn mjög spenntur fyrir sunnudeginum stóra.

 

,,Það eina sem er leiðinlegt við undanúrslitaleikinn gegn Grindavík á sunnudag í bikarnum er að liðin skuli ekki mætast í Laugardalshöll í bikarúrslitaleiknum sjálfum. Þetta eru bestu liðin í deildinni að mínu mati, með bestu leikmennina og eru að spila besta boltann. Þetta þýðir bara að fólk verður að fjölmenna í Grindavík á sunnudag og horfa á stórkostlegan körfubolta,” sagði Jón og ljóst að töluverð spenna er komin strax á milli Suðurnesjaliðanna fyrir sunnudeginum.

 

Í leiknum í kvöld var TaKesha Watson stigahæst í liði Keflavíkur með 34 stig en hún tók einnig 9 fráköst, gaf 6 stoðsendingar, stal 3 boltum og varði 1 skot. Næst henni kom Susanne Biemer með 18 stig og 5 fráköst. Ingibjörg Elva bætti við 14 stigum og Pálína setti niður 11 stig.

 

Tölfræði leiksins

 

VF-Mynd/ Þorgils Jónsson, [email protected]Margrét Kara Sturludóttir sækir að körfu KR í Sláturhúsinu.

 

Texti: [email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024