Jón Halldór: Er mjög ánægður
„Ég er mjög ánægður með þessa byrjun á tímabilinu. Það er alltaf gaman að vinna hvort sem það er deildarleikur eða bikar,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari nýbakaðra Powerade-bikarmeistara Keflavíkur, eftir sigur liðsins á KR, 82-71 í gær. Hann hrósaði KR-liðinu fyrir góða frammistöðu, sem léku án erlends leikmanns í úrslitaleiknum í gær.
„Það kemur alltaf maður í manns stað, hvort sem það er erlendur leikmaður eða ekki. KR er með gott lið, en ég er líka með mjög gott lið í höndunum. Við vorum 11 stigum betri í leiknum í dag (gær),“ sagði Jón Halldór.
Keflavík átti mjög gott tímabil í fyrra og vann þrjá titla af fjórum mögulegum. Jón Halldór segir að atlaga verði gerð að öllum titlum í ár. „Ég fer í hvern einasta leik til að vinna, það skiptir ekki máli hver andstæðingurinn er. Ef við vinnum alla leikina þá vinnum við alla titlana sem í boði eru. Við ætlum að gera heiðarlega atlögu að öllum titlunum,“ sagði Jón Halldór sem var ekki ánægður með spilamennsku liðs síns í leiknum.
„Mér fannst við ekki vera að spila vel. Það var smá haustbragur á liðinu og við erum nýbúnar að fá Keshu (Watson) aftur. Það eru margar stelpur að koma upp úr meiðslum, og sumar eru að spila meiddar. Það bitnar á leik liðsins sem var mjög hægur í leiknum. Ég er engu að síður rosalega glaður með sigurinn og ætla ekki að taka neitt af því hvernig KR var að spila. Þær voru að spila mjög vel og ef þær fá sér góðan erlendan leikmann þá eiga þær eftir að veita okkur harða keppni í vetur. Það er hins vegar klárt að ef liðið mitt spilar af eðlilegri getu þá vinnur mig ekki neinn,“ sagði Jón Halldór kokhraustur í leikslok.
VF-MYND/JJK: Jón Halldór Eðvaldsson var ánægður með að fyrsti titilinn væri í hús eftir sigur á KR í Powerade-bikar kvenna.