Jón Hafsteinsson: Förum í einvígið af fullum krafti
Keflvíkingar máttu sætta sig við að tapa 2-0 gegn Snæfell í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í fyrra. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og í kvöld munu deildarmeistarar Keflavíkur fá Þór Akureyri í heimsókn í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Leikurinn hefst kl. 19:15 í Toyotahöllinni í Keflavík en það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst áfram í undanúrslitin. Jón N. Hafsteinsson leikmaður Keflavíkur segir að von sé á hörku seríum á öllum vígstöðvum í fyrstu umferðinni.
,,Deildin hefur aldrei verið jafn sterk og hún er núna og öll liðin í 8-liða úrslitum eru virkilega sterk. Hver sería verður hörku sería og flottir leikir allsstaðar,” sagði Jón N. Hafnsteinsson og upplýsti að Keflvíkingar væru mjög einbeittir að sjálfum sér og litu minna til andstæðinganna.
,,Við hugsum fyrst og fremst um okkar eigin leik og spáum ekki það miki í andstæðingum okkar yfir tímabilið. Nú þegar er komið að úrslitakeppninni þurfum við að brjóta þetta aðeins meira niður og skoða hin liðin og sjá hvaða þætti þarf að leggja áherslu á og hvaða leikmenn þurfi að stoppa. Þá þurfum við einnig að kafa dýpra í okkar leik,” sagði Jón en Keflavík vann báðar deildarviðureignir sínar gegn Þór í vetur en það var áður en Þór bætti við sig hávöxnum enskum leikmanni.
,,Þórsarar eru með nýjan leikmann sem við mættum ekki í vetur en við unnum báða leikina og það hefur samt lítið að segja núna. Við verðum bara að fara í einvígið af fullum krafti og leika okkar leik því þá á þetta að hafast,” sagði Jón hvergi banginn.
VF-Mynd/ [email protected]– Jón N. Hafsteinsson leikmaður Keflavíkur.