Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Jón: Gott að fara Norður og ná í sigur
Fimmtudagur 24. janúar 2008 kl. 22:40

Jón: Gott að fara Norður og ná í sigur

Keflvíkingar gerðu góða ferð Norður til Akureyrar í kvöld er þeir lögðu heimamenn í Þór 72-88 og styrktu þar með ennfrekar stöðu sína á toppi Iceland Express deildar karla í körfuknattleik. Jón N. Hafsteinsson gerði 5 stig og tók 7 fráköst fyrir Keflavík í kvöld en hann sagði í samtali við Víkurfréttir að leikur Keflavíkurliðsins hefði smollið saman í síðari hálfleik.

 

,,Við vorum að fá á okkur klaufavillur í fyrri hálfleik og ekki að spila nógu vel sem lið en í hálfleik lét Siggi þjálfari okkur heyra það og það dugði til því við lokuðum vel á Þórsara í síðari hálfleik,” sagði Jón en Þór gerði aðeins 10 stig í fjórða leikhluta.

 

,,Það er gott að koma til Akureyrar og fara heim með sigur. Þórsarar kunna alveg að spila körfubolta og deildin hefur sjaldan eða aldrei verið jafn sterk og núna og menn verða bara að mæta með rétt hugarfar í alla leiki,” sagði Jón en að þessu sinni var Tommy Johnson stigahæstur í Keflavíkurliðinu með 24 stig og 9 stoðsendingar.

 

,,Nú bíðum við bara spenntir eftir sunnudeginum því leikir Keflavíkur og Njarðvíkur eru skemmtilegustu leikirnir. Njarðvíkingar hafa spilað vel að undanförnu þrátt fyrir tap gegn ÍR í kvöld. Damon Bailey er að smella vel inn í þeirra leik en nú þurfum við bara að gleyma þessum Þórsaraleik og einbeita okkur að sunnudeginum,” sagði Jón en töluverð spenna er fyrir grannaslag Keflavíkur og Njarðvíkur á sunnudag enda jafnan stórskemmtilegir leikir þegar þessi lið mætast á parketinu.

 

Staðan í deildinni

 

VF-Mynd/ Úr safni - Jón N. Hafsteinsson í leik með Keflavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024