Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Jólin eru magnaður tími á  Trínidad  og Tóbagó
Jonathan Glenn með Þórhildi Ólafsdóttur, eiginkonu sinni, og Amelíu Grace, dóttur þeirra. Myndir af Facebook-síðu Jonathan Glenn
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 11. desember 2022 kl. 08:16

Jólin eru magnaður tími á Trínidad og Tóbagó

– segir Jonathan Glenn sem tók við stöðu þjálfara meistaraflokks kvenna í knattspyrnu hjá Keflavík fyrir skemmstu en á síðasta tímabili þjálfaði hann meistaraflokk kvenna hjá ÍBV. Glenn, sem er frá Trínidad og Tóbagó, kom til Íslands árið 2014 þegar hann gekk til liðs við Pepsi-deildarlið ÍBV – það var Sigurður Ragnar Eyjólfsson sem fékk Glenn til Eyja en Sigurður, sem er núverandi þjálfari karlaliðs Keflavíkur, var með Eyjaliðið á þeim tíma.

Hvernig stendur á því að þú, komandi frá Trínidad og Tóbagó, endar á Íslandi af öllum stöðum?

„Það er svolítið fyndið því eftir að hafa lokið skólagöngu í Trínidad [High School] fékk ég styrk til að fara til frekara náms í háskóla í Bandaríkjunum, þar spilaði ég fótbolta og lauk mínu námi. Eftir það fékk ég tækifæri til að fara í atvinnumennsku í Bandaríkjunum þar sem ég lék í tvö tímabil,“ segir Glenn þegar Víkurfréttir hittu hann á skrifstofu knattspyrnudeildar Keflavíkur við Sunnubraut. „Það er svolítið fyndið en Siggi Raggi var þá að þjálfa ÍBV og það var hann sem samdi við mig og fékk mig hingað. Ég kom til ÍBV árið 2014 og var þar í eitt og hálft tímabil, ég skipti yfir í Breiðablik um mitt tímabil 2015 og lék með þeim í tvö ár en þá fór ég aftur til Bandaríkjanna.“ Glenn sneri aftur til Íslands árið 2018 og gekk þá til liðs við Fylki en hélt aftur til Eyja ári síðar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég vissi þá að ég myndi vilja fara að snúa mér að þjálfun í auknum mæli en ég hafði verið að þjálfa úti í Bandaríkjunum. Svo samhliða síðustu árunum mínum hjá ÍBV tók ég að afla mér UEFA-þjálfararéttinda. Þetta er búið að vera skemmtilegt ferðalag en það er mjög ánægjulegt að hafa fengið að þjálfa frá yngri flokkum og upp í meistaraflokk, að fá að kynnast mörgu áhugaverðu fólki og byggja upp sambönd,“ segir Jonathan sem er í dag kvæntur íslenskri konu, Þórhildi Ólafsdóttur, og saman eiga þau eina dóttur.

„Við hittumst þegar ég kom hingað árið 2014,“ rifjar Jonathan upp. „Hún var leikmaður kvennaliðs ÍBV og við byrjuðum að spjalla, fórum á stefnumót og svo giftum við okkur í Bandaríkjunum árið 2017. Núna eigum við fallega, þriggja ára dóttur, Amelía Grace.“

Þórhildur lék með ÍBV á síðasta tímabili svo það er ekki úr vegi að spyrja hvort hún verði áfram í boltanum.

„Hún er að hugsa málið, það er ekki víst. Hún spilaði vel síðasta sumar og naut þess, hún er ekki viss hvort hún haldi áfram. Það er svolítið erfitt að vera með lítið barn þegar við erum bæði á sama tímaplani, allur tíminn fjarri henni. Það var auðveldara úti í Eyjum, þar sem foreldrar Þórhildar gátu hlaupið undir bagga með okkur. Núna erum við að flytja á nýjan stað, hún að byrja í nýjum leikskóla og við hugsum málið.“

Ég spyr Jonathan hvort hann sjái fyrir sér að hann sé kominn til að vera á Íslandi. Eða hvert stefnirðu sem þjálfari?

„Þegar maður velur að gera fótbolta að sínum starfsferli þá veit maður aldrei hvert hann tekur mann. Við Þórhildur gerum okkar plön en þau eru sveigjanleg, núna viljum við njóta þess sem við höfum og einbeita okkur að því – fá að kynnast skemmtilegu og áhugaverðu fólki og halda fótboltaferðalaginu áfram.“

Jonathan og Þórhildur giftu sig árið 2017 í Jacksonville í Florida.

Trínidad og Tóbagó var smæsta þjóðin til að komast á HM ... þar til Ísland sló þeim við

Jonathan kemur frá Trínidad og Tóbagó sem eru eyjar í Karabíska hafinu, staðsettar skammt undan ströndu Venesúela í Suður-Ameríku, með um 1,4 milljónir íbúa. „Flestir búa á eyjunni Trínidad en Tóbagó, sem er minni eyjan, má segja að sé meiri ferðamannastaður,“ segir Glenn.

Fótboltinn er vinsæl íþrótt á Trínidad og margir sterkir leikmenn koma þaðan. Sennilega er knattspyrnumaðurinn Dwight Yorke þeirra þekktastur en hann gerði garðinn frægan með liðum eins og Manchester United, Aston Villa og Blackburn Rovers.

„Dwight Yorke er algjört „legend“,“ segir Glenn með glampa í augum. „Skóladeildin [High School League] er mjög sterk og hún er vinsælli en efsta deildin, margir leikmenn úr henni fara á samning til Bandaríkjanna í nám.“

Trínidad og Tóbagó keppti á HM 2006 og var þá smæsta þjóðin sem hafði náð að komast í úrslitakeppnina, Ísland tók það met af þeim fyrir fjórum árum.

„Eftir að hafa komist á HM átti ég von á að fótboltinn á Trínidad færi upp á við en hann fór eiginlega í hina áttina. Mér finnst að við hefðum getað nýtt það tækifæri betur en ég elska landið mitt, það er svo fallegt – æðislegt.“

 Glenn og Luka Jagacic, yfirmaður knattspyrnumála hjá Keflavík, við undirskrift ráðningarsamningsins. VF-mynd: JPK

Ánægður með það sem hann hefur í höndunum

Jonathan tók við meistaraflokki kvenna hjá Keflavík fyrir rétt um mánuði síðan og hefur því aðeins náð að mynda sér skoðun á liðinu. Hann hefur þegar fengið tvo leikmenn sem léku með ÍBV á síðasta tímabili, Madison Wolfbauer og lettnesku landsliðskonuna Sandra Voitane.

Hvernig sérðu næsta tímabil fyrir þér?

„Ég hef verið með liðinu síðustu þrjár, fjórar vikur og er svo ánægður með það sem ég hef séð. Hvernig þær hafa brugðist við. Mér finnst andrúmsloftið og viðmótið hjá liðinu mjög gott, þær eru tilbúnar að leggja mikið á sig og vilja bæta sig. Það gleður mig mikið og ég vil setja saman lið sem Keflvíkingar geta verið stoltir af, lið þar sem allir leikmenn eru tilbúnir að leggja sig 100% fram í hvern einasta leik.

Fyrir næsta tímabil munum við því skoða vandlega hvernig leikmenn passa inn í hópinn og vanda okkur við valið – ég er mjög ánægður með þann hóp sem ég hef í höndunum og aðeins góðir leikmenn sem munu bæta við gæði hópsins munu koma til greina,“ segir þjálfarinn.

Heldurðu að þú eigir eftir að fá fleiri leikmenn fyrir næsta tímabil?

„Ég held að við þurfum að vera mjög öguð og fara varlega í vali á leikmönnum, sérstaklega í ljósi þess að við höfum ekki sömu fjárráð og stóru félögin í deildinni. Við þurfum að vera kæn í leikmannamálum. Við þurfum líka að vera skynsöm í því hvernig við æfum, hvernig mataræði leikmanna er háttað og hugsa vel um líkama okkar. Við verðum að ná því besta úr hverjum einstaklingi, sérstaklega í ljósi þess að við verðum líklega ekki með breiðasta hópinn. Auðvitað verðum við að bæta einhverjum leikmönnum við en allir þessir hlutir eru mikilvægir til að ná því besta úr því sem við höfum. Svo við verðum samkeppnishæf í mjög sterkri deild á næsta ári.“

Trínidad og Tóbagó, suðupottur ólíkra menningarheima

Jonathan segir að samfélagið á Trínidad og Tóbagó sé mjög blandað. Þetta sé mikið fjölmenningarsamfélag en langflestir íbúar eyjanna eru af afrískum eða austur-indískum uppruna, þá blandast einnig kínverskur og evrópskur uppruni inn í mengið og auðvitað frumbyggjar.

Hvernig er svo haldið upp á jól á Trínidad og Tóbagó?

„Þetta er svo fjölþjóðlegur staður, eiginlega suðupottur ólíkra menningarheima,“ segir hann. „Ef við lítum aðeins til baka í sögunni, til tíma þrælahalds, þá kom megnið af fólkinu frá Afríku og Austur-Indíum. Hvor hópur um fjörutíu prósent, síðan voru það líka Kínverjar, hvítir og frumbyggjar eyjanna. Svo við á Trínidad höldum upp á allt – allir halda upp á allar hátíðir, sama hvort þær séu hátíðir hindúa, múslima eða kristinna.

Það er alveg einstakt en fólk af þessum ólíku trúarbrögð lifir þar saman í sátt og samlyndi. Það ber virðingu hvert fyrir öðru og gleðst saman. Það var einstakt að fá að alast upp á þessum stað og ég held að það hafi auðveldað mér að aðlagast lífinu á öðrum stöðum, eins og í Bandaríkjunum og hér á Íslandi. Ég hef ferðast til fjölmargra staða með fótboltanum og uppeldið leyfir mér að kunna að meta ólíkar upplifanir og menningu – ég elska að kynnast menningu annarra.“

Jonathan segir að jólin séu magnaður tími á Trínidad og Tóbagó. Þau séu tími tónlistar og veisluhalda og séu mjög hátíðleg.

„Þau er ólík því sem þekkist hér á landi,“ segir hann. „Í fyrsta lagi þá höldum við jólin á jóladag og opnum pakka á jóladagsmorgun. Á aðfangadagskvöld og langt fram á aðfaranótt jóladags fara litlar hljómsveitir hús úr húsi og spila fyrir fólk. Þessu tónlistarfólki þarf að taka vel á móti og gefa þeim að borða og drekka. Síðan spila þau og syngja í tuttugu mínútur, hálftíma áður en þau halda í næsta hús. Þau byrja upp úr miðnætti og geta verið að til sex, sjö að morgni jóladags,“ segir Jonathan og brosir. „Svo þegar þú vaknar um morguninn þá getur verið að einhver ókunnur gæi sé bara sofandi áfengisdauða í garðinum hjá þér.“ Nú veltist Jonathan um af hlátri. „Það er ógeðslega fyndið.“

Jonathan segir að þessir tónlistarmenn flytji spænsk lög og það sé arfleifð frá þeim tíma þegar Spánverjar voru nýlenduherrar á þessum slóðum. „Þetta er eini tíminn á árinu þar sem spænsk lög eru sungin á Trínidad.“

Fjölskyldan prúðbúin við jólatréð.

En hér á Íslandi, haldið þið upp á jólin eins og hver annar Íslendingur?

„Já, við höldum í íslenskar hefðir og opnum pakka á aðfangadagskvöld. Borðum hefðbundinn íslenskan jólamat.“

Hvernig kanntu við íslenska matinn?

„Ég elska íslenskan jólamat, ég er svo heppinn að konan mín og mamma hennar eru frábærir kokkar. Allt sem þær elda; hvort sem það kalkúnn, purusteik eða hvað sem er, finnst mér gott,“ segir Jonathan Glenn að lokum.