Jóhann varð annar í tvíliðaleik
Borðtenniskappinn Jóhann Rúnar Kristjánsson úr Keflavík náði afar góðum árangri á opna borðtennismótinu í Lignano á Ítalíu sem fór fram um helgina. Hann varð í 2. sæti ásamt Paul Davies, breskum félaga sínum, í tvíliðaleik og varð í 5.-8. sæti í sínum flokki. Jóhann sagði í samtali við Víkurfréttir að þetta mót hafi verið afar sterkt og hann sé að leika mjög vel um þessar mundir.
Eftir tvær vikur heldur Jóhann utan til að keppa á Evrópumeistaramótinu í Slóveníu og er hann bjartsýnn á eigið gengi þar. Hann hefur hingað til aldrei komist upp úr riðlakeppninni þó hann hafi náð góðum sigrum inn á milli, en keppendur á mótinu um helgina eru flestir í hópi keppenda á EM.
Mynd: Frá mótinu í Lignano. Jóhann ásamt félaga sínum Paul Davies og á milli þeirra er íslenski þjálfarinn Kristján Jónasson.