Jóhann úr leik í opnum flokki
Keppni á heimsmeistaramótinu í borðtennis hófst í Kóreu í gær þar sem Jóhann Rúnar Kristjánsson hóf keppni í opnum flokki. Jóhann keppir í sitjandi flokki C2 og fékk þýskan andstæðing í fyrstu umferð að nafni Thomas Schmidtberger sem er í flokki C3. Skemmst er frá því að segja að Thomas hafði betur 3-0.
„Thomas er einn sá besti í flokki C3 í dag en Jói spilaði alls ekki illa þó smá hefði vantað upp á að við næðum að stríða honum,“ sagði Helgi Þór Gunnarsson landsliðsþjálfari sem staddur er í Kóreu ásamt Jóhanni.
,,Síðan var dregið í riðla í einliðaleiknum og riðillinn hans Jóa er mjög snúinn og einn sá alversti myndi ég halda svona fyrirfram en hann er með núverandi Ólympíumeistara frá Frakklandi og svo fyrrvernadi Ólympíumeistara frá Sydney sem er frá Kóreu þannig að það er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur,“ sagði Helgi ennfremur en keppni í riðlunum hefst á morgun, föstudag.