Jóhann Páll endurkjörinn formaður GS
Aðalfundur Golfklúbbs Suðurnesja fór fram á þriðjudagskvöld í golfskálanum í Leiru. Jóhann Páll Kristbjörnsson, formaður GS, var endurkjörinn formaður klúbbsins. Rekstur GS var í járnum á síðasta ári en niðurstaðan var um hálf milljón í hagnað.
Á fundinum las formaður skýrslu stjórnar og fór yfir atburði líðandi árs. Gunnar Þór Jóhannsson, framkvæmdastjóri klúbbsins, fór yfir ársreikning 2015 og var hann samþykktur.
Fjórir gengu úr stjórn, þau Hafdís Ævarsdóttir, Jón Ingi Ægisson, Davíð Viðarsson og Ísak Ernir Kristinsson. Nýtt fólk kosið í stjórn eru Björgvin Sigmundsson, Heiður Björk Friðbjörnsdóttir, Heimir Hjartarson og Johan D. Jonsson.
Stjórn GS 2016 lítur þá þannig út:
Jóhann Páll Kristbjörnsson, formaður
, Guðmundur Rúnar Hallgrímsson (situr áfram í 1 ár)
, Hilmar Th. Björgvinsson (situr áfram í 1 ár)
, Karitas Sigurvinsdóttir (situr áfram í 1 ár)
, Björgvin Sigmundsson (í stjórn til 2ja ára)
, Heimir Hjartarson (í stjórn til 2ja ára),
Sigurrós Hrólfsdóttir (í stjórn til 2ja ára),
Georg Arnar Þorsteinsson (í varastjórn til 1 árs)
, Heiður Björk Friðbjörnsdóttir (í varastjórn til 1 árs),
Johan D. Jonsson (í varastjórn til 1 árs).
Áhyggjur af brottfalli yngri kylfinga og lítil nýliðun hefur verið að valda golfhreyfingunni áhyggjum. Stjórn GS lagði til breytingar á gjaldskrá klúbbsins með fyrir sjónum að sporna við þeirri þróun sem hefur orðið síðustu árin. Ágætar umræður sköpuðust um gjaldskrána sem var samþykkt með smávægilegum breytingum.
Lykiltölur úr rekstri GS
Hagnaður var á rekstri GS í síðasta starfsári að upphæð 492.038 kr. eftir afskriftir og vaxtagjöld. Tekjur klúbbins voru 72.444.548 kr. og gjöld 70.410.897 kr.
Skuldir GS lækkuðu um 2.833.252 kr. á tímabilinu eða fóru úr 21.823.000 kr. niður í 18.999.000 kr.
Kylfingur ársins 2015 hjá Golfklúbbi Suðurnesja er Zuzanna Korpak. Hún sýndi miklar framfarir á árinu, endaði í 3. sæti stigalista GSÍ í sínum flokki og varð Íslandsmeistari í holukeppni GSÍ. Zuzanna tók þátt í landsliðsverkefnum á árinu og hefur sýnt að hún er afrekskylfingur framtíðarinnar. Zuzanna hefur sýnt fram á mikla elju og dugnað við sína golfiðkun, sýnt fádæma góðan árangur síðustu árin og er vel að þessum titli komin.