Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Jóhann jarðaði Grindvíkinga
Fimmtudagur 8. febrúar 2007 kl. 23:13

Jóhann jarðaði Grindvíkinga

Þegar mest á reyndi og spennan í algleymingi voru það ekki „stóru karlarnir“ sem tóku af skarið heldur Jóhann Árni Ólafsson. Framlengja varð leik Grindavíkur og Njarðvíkur í Iceland Express deild karla í kvöld enn eina ferðina en leikir þessara liða eru afar hjartastyrkjandi og skemmtilegir. Njarðvíkingar fóru þó með sigur af hólmi eftir æsispennandi síðari hálfleik og þar fór Jóhann Árni fremstur í flokki. Jóhann lauk leik með 17 stig og þorri þeirra kom á raunastund. Sigurinn í kvöld var sá níundi í röðinni hjá Njarðvík og mikilvægt fyrir Íslandsmeistarana að Jóhann sé óðum að ná sínu fyrra formi en frá því í sumar hefur hann átt við erfið meiðsli að stríða.

 

Njarðvíkingar komu heimamönnum í Grindavík í opna skjöldu í upphafi leiks. Brenton Birmingham setti niður þriggja stiga körfu og í næstu sókn bætti Jeb Ivey annarri við og staðan því 6-0. Heimamenn tóku þó fljótt við sér og á rétt rúmum tveimur mínútum breyttu þeir stöðunni í 8-9 sér í vil. Njarðvíkingarnir náðu forystunni að nýju og komust í 14-13 þegar fyrsta leikhluta lauk. Liðin voru vör um sig í upphafi leiks og óhætt að segja að þau hafi verið fremur mistæk.

 

Guðmundur Jónsson reyndi hvað hann gat að koma sér inn í leikinn í Njarðvíkurliðinu. Hann fékk hvert opna skotið á fætur öðru en þau vildu ekki í netið. Jafnt var á með liðunum en Grindvíkingar voru hvergi bangnir þegar þeir stilltu upp í pressuvörn gegn Njarðvíkingum og hægði það verulega á Íslandsmeisturunum. Þegar líða tók á leikhlutann tók Guðmundur að hitna og lék manna best á köflum í Njarðvíkurliðinu. Það voru engu að síður Grindvíkingar sem leiddu í hálfleik 41-39.

 

Njarðvíkingar komu vel stemmdir í síðari hálfleikinn og gerðu níu stig í upphafi þriðja leikhluta án þess að Grindvíkingar næðu að svara. Allt gekk upp hjá gestunum sem léku við hvern sinn fingur en Grindavík hélt sig nærri. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 53-62 Njarðvík í vil þar sem Brenton Birmingham og Guðmundur Jónsson fóru fyrir þeim grænu.

 

Í fjórða leikhluta náðu Grindvíkingar að brúa bilið og jafna leikinn. Um miðbik fjórða leikhluta varð leikstjórnandinn Adam Darboe frá að víkja í liði Grindavíkur með sína fimmtu villu. Dómarar leiksins settu nokkuð harða línu og voru leikmenn oft og tíðum að fá dæmdar á sig ódýrar ásláttarvillur sem setti smávægilegt mark á leikinn sem missti stundum takt fyrir vikið. Takttruflunina má bæði skrifa á dómara og leikmenn, sett var of hörð lína sem dómararnir fylgdu fast eftir en leikmenn gerðust sekir um að vera sífellt að teygja sig í andstæðinginn.

 

Í stöðunni 78-76 fyrir Grindavík voru innan við 10 sekúndur til leiksloka þegar Njarðvíkingar eru í sókn. Enn ein ásláttarvillan er þá dæmd og í þetta sinn á Þorleif Ólafsson. Þorleifur braut á Jeb Ivey sem jafnaði metin á vítalínunni í 78-78 þegar 6 sekúndur voru til leiksloka. Grindvíkingar héldu í síðustu sóknina og átti Jonathan Griffin erfitt skot sem dansaði af hringnum og því varð að framlengja.

 

Njarðvíkingar gerðu fyrstu stig framlengingarinnar og unnu síðan leikinn eins og áður hefur komið fram og sannast þar með enn einu sinni sú tugga að það lið sem fyrst skorar í framlengingu fer yfirleitt með sigur af hólmi. Jóhann Árni Ólafsson fór hreinlega hamförum í framlengingunni bæði í vörn og sókn en hann gerði 17 stig í leiknum og 14 í framlengingunni. Njarðvíkingar gerðu 20 stig í framlengingunni, Jóhann 14, Friðrik Stefánsson 4 og Halldór Karlsson 2.

 

Eftir sigurinn eru Njarðvíkingar á toppi deildarinnar með 28 stig en Grindvíkingar hafa 16 stig. Hjá Njarðvík var Brenton Birmingham með 23 stig, Jeb Ivey 20 og hetja leiksins, Jóhann Árni, gerði 17 stig. Calvin Clemmons var drjúgur í liði Grindavíkur með 18 stig og var hann gríðarlega sterkur síðustu mínúturnar. Jonathan Griffin gerði einnig 18 stig í leiknum en alls voru fimm leikmenn í lið Grindavíkur sem gerðu 10 stig eða meira.

 

Staðan í deildinni

 

[email protected]

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024