Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Jóhann Íþróttamaður ársins hjá ÍF
Miðvikudagur 12. desember 2007 kl. 18:02

Jóhann Íþróttamaður ársins hjá ÍF

Íþróttasamband fatlaðra valdi í dag Jóhann Rúnar Kristjánsson íþróttamann ársins 2007 í karlaflokki. Þá var Karen Björg Gísladóttir valin íþróttamaður ársins í kvennaflokki við sama tilefni.

 

Þau Jóhann og Karen tóku við verðlaunum sínum á Hótel Sögu Radisson SAS í dag við mikla viðhöfn. Jóhann hefur átt gríðargóðu gengi að fagna í borðtennis þetta árið en Karen Björg sem keppir fyrir Fjörð í Hafnarfirði hefur náð merkum árangri í sundi. Jóhann keppir fyrir íþróttafélagið Nes á Suðurnesjum.

 

Meðal afreka Jóhanns í ár eru þrenn gullverðlaun á Íslandsmóti ÍF í borðtennis í mars á þessu ári, silfur í einliðaleik og liðakeppni á sterku móti í Dublin í apríl og 2. sæti í liðakeppni í Lignano í september svo eitthvað sé nefnt.

 

Jóhann Rúnar Kristjánsson hefur unnið hjá Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur í um 8 ár en hann slasaðist í mótorhjólaslysi árið 1994 og var um 9 mánuði í endurhæfingu. Hann er með svokallaða þverlömun og er hann lamaður upp að brjósti. Jóhann hóf að iðka borðtennis á Reykjalundi meðan á endurhæfingunni stóð en hóf markvissar æfingar árið 1997, síðan þá hefur hann sópað til sín verðlaunum og er í dag á meðal fremstu borðtenniskappa heims í sínum flokki.

 

Til hamingju Jóhann!

 

Nánar verður rætt við Jóhann í Víkurfréttum fimmtudaginn 20. desember.

 

VF-Mynd/ Jón Björn Ólafsson, [email protected]Jóhann Rúnar með bikarinn góða við afhendinguna í dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024