Jóhann Árni út úr landsliðinu sökum meiðsla
Njarðvíkingurinn Jóhann Árni Ólafsson er kominn út úr A-landsliði karla í körfuknattleik sökum meiðsla. Þá getur Jón Arnór Stefánsson ekki verið með liðinu að þessu sinni og gaf ekki kost á sér. Íslenska landsliðið undirbýr sig nú af kappi fyrir síðari hlutann í riðlakeppni Evrópukeppninnar en Ísland leikur á meðal B-þjóða í Evrópuboltanum.
Grindvíkingurinn Þorleifur Ólafsson og Fjölnismaðurinn Hörður Axel Vilhjálmsson koma inn í landsliðið í stað Jóhanns og Jóns Arnórs en það er sérlega súrt í broti fyrir Njarðvíkinginn unga að detta út úr hópnum. Jóhann kom inn í landsliðið sem nýliði á Smáþjóðaleikunum í Mónakó þar sem íslenska liðið nældi sér í gullverðlaun á mótinu.
VF-mynd/ Úr safni - Jóhann Árni tekur skot yfir bandaríska bakvörðinn Justin Shouse á síðustu leiktíð í viðureign Njarðvíkinga og Snæfells í Ljónagryfjunni.