Jóhann Árni til Keflavíkur - Bryndís áfram hjá kvennaliðinu
Jóhann Árni Ólafsson sem lék í vetur með þýska liðinuProvero Merlins er genginn til liðs við úrvalsdeildarllið Keflavíkur í körfubolta og mun skrifa undir samning þessa efnis í dag.
Jóhann er Njarðvíkingur að upplagi og lék með liðinu frá unglingsárum og þótti standa sig vel í atvinnumennskunni í Þýskalandi í vetur. Það þarf því ekki að fjölyrða hversu mikill styrkur þetta er fyrir Keflvíkinga því Jóhann er einn af framtíðar körfuboltamönnum landsins. Það mun án efa ekki hafa skemmt fyrir að landsliðsþjálfarinn Sigurður Ingimundarson er þjálfari Keflvíkinga sem unnu engan titil í vetur.
Samhliða þessari undirritun mun Keflavík endurnýja samninga við þrjá leikmenn í kvennaliði sínu, þær Bryndísi Guðmundsdóttur, Hrönn Þorgrímsdóttur og Marín Karlsdóttur. Vitað er að Bryndís hafði fengið freistandi tilboð frá öðrum liðum en hún ákvað að vera áfram á heimaslóðum.
Bryndís og Marín glaðar í Keflavíkurbúningi. Að neðan má sjá Jóhann í leik með Njarðvík.