Jóhann Árni í eins leiks bann
Jóhann Árni Ólafsson leikmaður Grindavíkur hefur verið dæmdur í eins leiks bann af aga- og úrskurðarnefnd KKÍ. Bannið fær Jóhann sökum háttsemi sinnar í leik Stjörnunnar og Grindavíkur síðastliðinn sunnudag.
Jóhann fékk tvær tæknivillur í leiknum og var því rekinn úr húsi. Fyrst fékk hann tæknivillu fyrir að lenda í átökum við Fannar Helgason, fyrirliða Stjörnunnar á miðjum velli, en síðari tæknivilluna fékk hann fyrir kjaftbrúk.
Jóhann missir því af viðureign Grindavíkur og KR næsta fimmtudag en leikurinn fer fram í Röstinni í Grindavík.