Jens Elvar tekur við Reyni - Magni spilandi aðstoðarþjálfari
Í gær var gengið frá ráðningu Jens Elvars Sævarssonar sem spilandi þjálfara Reynis Sandgerði, en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins. Jens kemur til liðsins frá Þrótti Reykjavík þar sem hann spilaði á síðustu leiktíð.
Eftir undirskriftina tilkynnti Jens Elvar að Magni Jóhannsson verður honum til aðstoðar sem spilandi aðstoðarþjálfari. Magni hefur leikið með liði Reynis í tæp sjö ár, en hann var í fyrra markahæsti leikmaður 2. deildar og var kosinn í lið ársins á Fótbolta.net.
,,Ég er mjög spenntur fyrir því að hefja störf hjá Reyni. Mér líst vel á áætlanir stjórnarinnar og það litla sem ég veit um hópinn. Þetta er spennandi verkefni og ég er bara æstur í að byrja," sagði Jens eftir undirskriftina.
,,Ég kannast aðeins við þessa menn og hef spilað á móti þeim allmörgum sinnum þegar ég starfaði hjá Hvöt. Ég þekki líka nöfnin þeirra en kannski ekki alveg getu þeirra allra. Ég hef hringt í menn úti í bæ, spurst fyrir um þá sem ég þekki minna til og fengið ekkert nema góð svör. Allir sem ég hef heyrt í tala vel um allt hérna, leikmennina, aðstæður og hvernig haldið er utan um klúbbinn.“
Mynd: Magni Jóhannsson verður spilandi aðstoðarþjálfari Reynis.