Jens Elvar hættur hjá Reynismönnum
Jens Elvar Sævarsson er hættur sem þjálfari Reynis Sandgerði í 2. deild karla í knattspyrnu. Þetta staðfesti hann í samtali við Fótbolta.net.
Tíð þjálfaraskipti hafa verið hjá Reynismönnum síðustu ár en Jens Elvar tók við sem spilandi þjálfari liðsins fyrir tímabilið en hann lék sjálfur 14 leiki með liðinu í sumar.
Eftir frábæra byrjun í 2. deildinni í ár gekk Reynismönnum skelfilega á löngu tímabili og liðið endaði að lokum í sjöunda sæti deildarinnar með 31 stig.
Jens Elvar er í viðræðum við annað félag varðandi þjálfun en hann hefur verið í herbúðum Þróttar, Fylkis, Fjarðabyggðar og Hvatar á Blönduósi.