Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Jeb Ivey: Það getur allt gerst, ég er tilbúinn í hvað sem er
Sunnudagur 17. febrúar 2008 kl. 10:16

Jeb Ivey: Það getur allt gerst, ég er tilbúinn í hvað sem er

Jeb Ivey þarf vart að kynna fyrir körfuboltaunnendum.  Pilturinn spilaði með Njarðvík í 2 ár og stóð sig frábærlega.  Jeb er frábær leikmaður sem var ekki síður gersemi utan vallar enda magnaður persónuleiki.  Auk þess að spila með UMFN þjálfaði hann yngri flokka með góðum árangri.  Jeb er nú að spila í Þýsku Bundesligunni með BT 74.Göttingen og stendur sig frábærlega, er að setja 14 stig og gefa 2 stoðsendingar í leik auk þess að taka 2 fráköst. 

Hvernig er lífið hjá þér í Þýskalandi?

Lífið í Þýskalandi er mjög fínt.  Svipað veðurfar og þar sem ég ólst upp og verðlagið nær því sem ég á að venjast frá BNA.  Hér er miðbærinn mjög skemmtilegur með fjölbreyttu lífi en eins og annarsstaðar í heiminum þá er bensínverðið fáránlega hátt.  Við erum með fínan bíl til umráða, VW Golf sem er þurr að innan, hahaha. Sjónvarpið hér er alveg glatað, flest talsett á þýsku en við hjónin horfum á efni í gegn um fartölvuna okkar og erum því í góðum málum.  Íbúðin okkar er mjög fín svona miðað við þær íbúðir sem liðsfélagar mínir búa í en við erum sátt.  Flestir tala hér ensku og mér gengur ekkert allt of vel að læra þýskuna en við Whitney erum að taka byrjunarkúrsa í þýsku svo þetta kemur allt.  Svona heilt yfir þá erum við mjög sátt í Þýskalandi.

Hver er munurinn á boltanum hér heima og í Þýskalandi?

Körfuboltinn hér í Þýskalandi er mjög frábrugðinn boltanum á Íslandi.  Flest lið eru með 5 – 6 ameríska leikmenn og mitt lið er með 8 sem dæmi.  Svo er hér mikið af erlendum þjálfurum t.d er minn þjálfari amerískur.  Hér eru 18 lið í deildinni og topp 8 liðin fara í úrslitakeppni eins og á Íslandi.  Stundum líður mér asnalega á vellinum, allir leikmenn inná eru kanar en það tekur svona evrópska fílinginn frá manni.  Samt getur það verið ágætt en svona er þetta bara hérna.  Annar mikill munur eru hallirnar, hér verða liðin að hafa amk 3.000 sæti og í okkar höll eru alltaf 4.000 manns og uppselt.  Það toppar þó ekki fílinginn sem maður fær í fullri Ljónagryfjunni í úrslitaleik.  Hér er líka stór munur á æfingum, hér gera menn ekkert annað en að spila körfubolta og eru atvinnumenn í faginu.

Hvernig er týpískur leikdagur hjá þér?

Á leikdegi vakna ég um 10 og fæ mér góðan morgunmat.  Þá fer ég upp í hús og æfi mig til þess að komast í réttan gír.  Um 2 leytið þá fer ég í mat á ítalskan veitingastað sem er mjög góður.  Svo legg ég mig aðeins heima áður en ég held af stað uppí hús um 18:15 en leikirnir byrja yfirleitt kl 19:30 hérna.

Hvers saknaru helst frá Íslandi?
 
Ég sakna síðustu 2ja ára gríðarlega mikið.  Auðvitað hef ég nóg að gera hérna úti en ég hugsa mikið til tímans í Njarðvík sem var frábær. 
Sérstaklega sakna ég liðsfélaga minni mikið, sakna þess að berja ekki á þeim á hverjum degi.  Ragnar Ragnarsson lagði hjartað og sálina í allt sem hann gerði og var alltaf jákvæður. Ég sakna þess hvernig kolsvartur húmorinn hjá Ödda Ká fékk mig til þess að brosa og gráta úr hlátri á hverjum degi.  Að spila gegn Brenton á hverjum degi gerði mig að miklu betri leikmanni.  Brenton væri All Star leikmaður hér í Þýskalandi vafalaust enda einn sá besti sem ég hef spilað með.  Að fá “skít” frá Gumma, Dóra og Jóa á hverri æfingu er hlutur sem ég sakna mikið. Menn tókust harkalega á á æfingum sem gerði menn að betri leikmönnum. 
Ég sakna Einars Árna mjög mikið, hann er frábær þjálfari og við erum miklir vinir í dag.  Einnig sakna ég Gunnars líka, hann var frábær sem aðstoðarþjálfari.  Pásson fjölskyldan í Grafarvogi reyndist mér vel og er besta og skemmtilegasta fjölskylda sem eg hef kynnst.  Auðvitað sakna ég Frikka Stef og við Witney fengum ósjaldan frábæran fisk hjá honum.  Olsen Olsen, Langbest, Vallabakarí og Ungó sakna þessara staða mikið, nammi namm. 
Starfsfólkið í Íþróttahúsi Njarðvíkur er frábært, þar reyndust mér allir svo vel, Bangsi og Gylfi eru mér sérstaklega kærir enda veit ég að innst inni elska þeir Njarðvík meira en Keflavík. Allir krakkarnir sem ég þjálfaði sakna ég mjög mikið, er stoltur af því að þjálfa þau og þekkja þeirra fjölskyldur.  Erlingur Hannesson og fjölskylda, allt saman snillingar. Rúni, hún Roxanne bíður þín spennt! Svo auðvitað Aggi og Svava okkar bestu vinir í heiminum, söknum þeirra gríðarlega.

Munt þú einhvern tíma spila aftur á Íslandi?

Það getur allt gerst, ég er tilbúinn í hvað sem er.  Hver veit hvað framtíðin ber með sér.

Sérðu sjálfan þig spila í Þýskalandi á næsta ári?

Ég sé sjálfan mig spila í Evrópu á næsta ári ég elska körfubolta og myndi elska það að sjá meira af Evrópu, sem er svo falleg.

Hvernig var að taka þátt í All Star leiknum í Þýskalandi?

All Star leikurinn hér var frábær, ótrúleg reynsla en virkilega erfið.  Þetta var salur með c.a 10.000 manns og stíft prógramm hjá okkur.  Það var verið að gefa eiginhandaráritanir, taka myndir og hitta fólk.  Svo sannarlega heiður að taka þátt í þessu með öllum þessum frábæru leikmönnum.

Lokaorð til allra á Íslandi? 

Ég vil bara þakka fyrir þessi 2 frábæru ár sem ég átti hjá Njarðvík.  Þetta eru einhver bestu ár sem ég mun upplifa og ég sakna allra og get ekki beðið eftir að koma “heim” aftur sem allra fyrst.

 

Viðtal af www.umfn.is


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024