Jankovic hættur með Keflavík
Milan Stefán Jankovic er hættur störfum sem þjálfari meistaraflokks Keflavíkur. Þetta kom fram á heimasíðu félagsins fyrir stuttu.
Þar segir: „Milan var fyrsti kostur knattspyrnudeildar sem þjálfari liðsins en hann var óákveðinn um framtíð sína hjá félaginu. Því var ákveðið að veita honum frest þar til í gær, mánudag, til að gefa svar um hvort hann hygðist starfa áfram hjá félaginu en það svar barst ekki.“
Þannig þykir ljóst að Milan mun ekki halda áfram hinu góða starfi sem hann hefur unnið hjá Keflavík, en hann stýrði liðinu til sigurs í 1. deild í fyrra og hampaði sjálfum bikarmeistaratitlinum fyrir skömmu.
Knattspyrnudeildin segir vonbrigði að Milan hafi ekki haft áhuga á að starfa áfram hjá liðinu, en þakka honum samstarfið og óska honum alls hins besta í framtíðinni.