Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Janko: Sanngjörn úrslit
Mánudagur 30. júní 2008 kl. 01:37

Janko: Sanngjörn úrslit

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Milan Stefán Jankovic, þjálfari Grindavíkur, var nokkuð sáttur við stigið sem þeir fengu úr leiknum gegn HK í dag. Leikurinn endaði 2-2 eftir að HK jöfnuðu leikinn á 79. mínútu.

 

„Ég held að þetta hafi verið sanngjörn úrslit. Við vorum betri í fyrr hálfleik og þeir í seinni. Veðrið setti strik í reikninginn fyrir okkur þar sem við gátum ekki spilað okkar venjulega bolta, en svona er þetta. Við verðum líka að spila í vondu veðri.“

 

Þetta var fyrsta stigið sem Grinvíkingar fá á leiktíðinni og einnig fyrstu deildarmörkin og Janko var ánægður með að  þeir hefðu loks náð að brjóta ísinn.

 

„Það er gott að skora loksins hér á heimavelli og ég vona bara að mörkin verði fleiri, bæði hér og á útivöllunum.“

 

Það er ekki ofsögum sagt að vindurinn hafi leikið stórt hlutverk í leiknum í dag þar sem hann átti hlut í báðum mörkum heimamanna. Fyrst átti Andri Snær Birgisson þrumuskot utan af velli með vindinn í bakið og smellti honum í möskvana óverjandi fyrir Gunnleif Gunnleifsson í marki HK.

 

HK jafnaði leikinn á 11. mínútu þegar Mitja Brulc skoraði beint úr aukaspyrnu, en Grindvíkingar komust umsvifalaust yfir aftur. Þar var Andri aftur á ferð en nú var það upp úr hornspyrnu Scott Ramseys. Spyrnan fór beint upp í vindinn og svo skarpt niður að marki HK og þar var Andri tilbúinn til að skalla knöttinn í markið.

 

Þannig stíoðu leikar í hálfleik. Grindvíkingar höfðu verið öllu hressari, en það snerist við þegar Kópavogsdrengir léku með vindi í seinni hálfleik. Þeir voru mun sterkari og þó færin væru ekki mörg voru þeir með góð tök á leiknum. Sókn þeirra bar svo loks árangur á 79. mínútu þegar Þorlákur Hilmarsson skoraði með skalla eftir hornspyrnu frá hægri kanti.

 

Eftir það voru HK-menn mun líklegri til að hirða öll stigin en Grindvíkingar þannig að heimamenn mega prísa sig sæla fyrir stigið.

 

Grinvíkingar eru enn í 9. sæti með 10 stig, einu minna en Blikar sem mæta Keflavík á Kópvogsvelli á morgun. Þá gætu Skagamenn komist yfir Grindvíkinga með sigri á KR á morgun.

VF-mynd/Þorgils