Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Jana leiddi Njarðvík í öruggum sigri
Jana Falsdóttir átti stórleik í gær og leiddi Njarðvíkinga í öruggum sigri á Fjölniskonum. Mynd úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 17. janúar 2024 kl. 08:57

Jana leiddi Njarðvík í öruggum sigri

Njarðvík vann frekar auðveldan sigur á Fjölni í Subway-deild kvenna í körfuknattleik í gær þegar liðin mættust í Ljónagryfjunni. Jana Falsdóttir sýndi stórleik og skoraði 24 stig í leiknum.

Njarðvík - Fjölnir 84:74

Njarðvíkingar tóku forystuna snemma og leiddu með sex stigum eftir fyrsta leikhluta (23:17). Þær juku muninn í öðrum leikhluta og gengu til hálfleiks með ellefu stig í farteskinu (45:34).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Seinni hálfleikur var mjög jafn og Njarðvíkingar ekkert á þeim buxunum að hleypa Fjölniskonum inn í leikinn. Bæði lið skoruðu tuttugu stig í hvorum leikhluta og Njarðvík stóð að lokum uppi með ellefu stiga sigur (84:74).

Hjá heimakonum var Jana Falsdóttir í hörkustuði og skoraði 24 stig, hún hitti úr sex af níu skotum sínum utan þriggja stiga línunnar. Eva Viso var með átján stig og nýjasti leikmaður Njarðvíkinga, Selena Lott, var með fimmtán stig, Emilie Hesseldal tók tólf fráköst og var með sex stig að auki eins og þær Hulda María Agnarsdóttir og Lára Ásgeirsdóttir.

Njarðvík er í öðru sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Keflavík sem tekur á móti Grindavík í Blue-hölinni í kvöld.