JÁKVÆÐNINÁMSKEIÐ FYRIR ÁHORFENDUR
Á leik Keflavíkur og Þróttar í Deildarbikarnum vakti athygli lítill hópur áhorfenda, margir hverjir mjög tengdir knattspyrnudeild Keflavíkur, sem kepptist við að gera dómara og línuvörðum leiksins lífið leitt. Fúkyrðunum rigndi yfir þessa starfsmenn vallarins sem eins og aðrir á vellinum gerðu mistök á báða bóga. Skiljanlegt er að vorbragur sé á áhorfendum sem leikmönnum og dómurum en þvílíka skítadreifara, sem þessa, ber að nota á auða grasbletti. Börn okkar bæjarbúa þurfa á öðrum fyrirmyndum að halda en þessum og vel vert að athuga hvort ekki er hægt að koma kjaftbullum þessum á jákvæðninámskeið, fyrir upphaf Íslandsmóts.