Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Jafntefli og töp í leikjum Suðurnesjaliðanna í gær
Dagur Ingi Hammer í leik gegn Fylki. Mynd úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 10. júní 2022 kl. 10:55

Jafntefli og töp í leikjum Suðurnesjaliðanna í gær

Grindavík - Fjölnir 2:2

Grindvíkingar tóku á móti Fjölni í Lengjudeild karla í knattspyrnu í gær en fyrir leikinn voru Grindvíkingar í fimmta sæti en Fjölnir í því fjórða. Grindvíkingar voru mikið betri í fyrri hálfleik en leiddu aðeins með einu marki í hálfleik þótt munurinn hefði auðveldlega átt að vera stærri.

Mark Grindvíkinga skoraði Aron Jóhannsson með skalla (7’) eftir góða fyrirgjöf Kairo Edwards sem átti frábæran fyrri hálfleik eins og fleiri í Grindavíkurliðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í seinni hálfleikur höfðu Grindvíkingar ekki sömu yfirburði og í þeim fyrri. Fjölnismenn gengu á lagið og jöfnuðu leikinn á 58. mínútu. Gestirnir bættu um betur og komust yfir fjórum mínútum fyrir leikslok (86’).

Dagur Ingi Hammer reyndist bjargvættur Grindvíkinga en hann skoraði jöfnunarmarkið á 89. mínútu eftir fyrirgjöf Viktors Guðbergs Haukssonar. Það er óhætt að segja að lokamínútur leiksins hafi verið fjörlegar því auk þess að fá tvö mörk undir lok hans hefðu Fjölnismenn getað fengið vítaspyrnu í uppbótartíma en dómarinn flautaði ekki og Grindvíkingar sluppu með skrekkinn. Lokatölur 2:2 og Grindavík er enn í fimmta sæti en Fjölnir fer upp í það þriðja.


Oumar Douck skoraði bæði mörk Njarðvíkinga gegn Haukum. VF-myndir: JPK

Njarðvík - Haukar 2:2

Njarðvíkingar töpuðu sínum fyrstu stigum í 2. deild karla á þessu tímabili þegar þeir mættu liði Hauka úr Hafnarfirði á Rafholtsvellinum í Njarðvík.

Oumar Diouck kom heimamönnum yfir strax á 2. mínútu en Haukar jöfnuðu eftir hálftíma leik (30’). Diouck skoraði öðru sinni á 53. mínútu og sóknir Njarðvíkinga voru oft þungar í seinni hálfleik en vörn Hauka stóð sína plikt og tókst að bægja hættum frá jafnóðum.

Síðustu tíu mínúturnar færði lið Njarðvíkur sig fullaftarlega á völlinn og ætlaði augljóslega að halda fengnum hlut, það kostaði þá jöfnunarmark því á 87. mínútu brutu Haukar niður vörn Njarðvíkur og náðu að skora. Síðustu mínúturnar sóttu Njarðvíkingar stíft og reyndu hvað þeir gátu að skora sigurmarkið en tíminn rann út og jafntefli niðurstaðan.

Blakala les leikinn vel og grípur hér sendingu í teig Njarðvíkinga seint í leiknum í gær ...
... en sóknarmaður Hauka reyndi að fiska vítaspyrnu, lét sig falla og greip um andlit sitt við lítinn fögnuð Bessa Jóhannssonar sem las honum pistilinn.
Í hita leiksins láta menn ýmislegt flakka en örfáum sekúndum síðar er allt gleymt og menn takast í hendur og halda áfram.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók myndir á leiknum eins og sjá má í myndasafni neðst á síðunni.


Reynismönnum ætlar að ganga illa að landa fyrsta stiginu í 2. deild karla.

ÍR - Reynir 2:1

Reynismenn eru enn án stiga á botni 2. deildar en þeir léku í Breiðholtinu í gær og töpuðu þá fyrir ÍR með tveimur mörkum gegn einu.

ÍR-ingar komust yfir á 12. mínútu en Ivan Prskalo jafnaði leikinn fyrir Reyni í seinni hálfleik (64’). ÍR skoraði úrslitamarkið skömmu fyrir lok leiksins (82’) og enn einn tapleikurinn staðreynd.


Hafnir - Uppsveitir 0:6

Hafnir mættur Uppsveitum, toppliði C riðils 4. deildar, í Nettóhöllinni í gærkvöld og máttu Hafnamenn játa sig sigraða með sex mörkum gegn engu.

Hafnir sitja í sjötta sæti síns riðils með þrjú stig eftir þrjá leiki en þeir hafa tapað fyrir tveimur efstu liðum riðilsins en unnu KB sem situr í sætinu fyrir neðan Hafnir með jafnmörg stig.

Njarðvík - Haukar (2:2) | 2. deild karla 9. júní 2022