Jafntefli í Njarðvík
- Þróttur jafnaði á lokamínútu leiksins
Njarðvík lék sinn fyrsta leik í Inkasso-deild karla í knattspyrnu í sumar í dag á Njarðtaksvellinum en Þróttur Reykjavík heimsótti Njarðvíkinga í annað sinn í sömu vikunni en liðin mættust í 32 liða úrslitum Mjólkurbikarsins sl. mánudagskvöld þar sem að Þróttarar fóru með sigur af hólmi.
Njarðvík gerði tvær breytingar á liði sínu frá því á mánudaginn en Robert Blakala kom inn í markið í stað Hlyns Arnars Hlöðverssonar og Ari Már Andrésson kom í liðið fyrir Theodór Guðna Halldórsson.
Leikurinn fór nokkuð rólega af stað og spiluðu Njarðvíkingar þétta vörn. Veðrið var ekki að leika með liðunum frekar en það hefur svo sannarlega verið að leika okkur Suðurnesjabúa grátt undanfarin misseri og var leikurinn í takt við veðrið í fyrri hálfleik. Þróttarar áttu nokkrar sóknir á mark Njarðvíkinga en heimamenn náðu alltaf að verjast og í einni sókn undir lokin áttu Þróttarar nokkur skot á markið í einu á Njarðvíkinga en allt kom fyrir ekki og staðan því jöfn 0-0 í hálfleik.
Brynjar Freyr Garðarsson, leikmaður Njarðvíkur fékk að líta gula spjaldið á 57. mínútu.
Njarðvík komst í 1-0 forystu á 59. mínútu þegar Neil Slooves skoraði eftir stoðsendingu frá Stefáni Birgi Jóhannessyni en Njarðvík fékk hornspyrnu sem Stefán tók og Neil nýtti sér góða sendingu frá honum. Tveimur mínútum síðar komst Kenneth Hogg í dauðafæri en markmaður Þróttar, Arnar Darri náði að verjast. Bergþór Ingi Smárason fékk gult spjald á 66. mínútu leiksins.
Njarðvík gerði breytingu á liði sínu á 73. mínútu leiksins þegar Birkir Freyr Sigurðsson kom inn á fyrir Ara Már Andrésson og Helgi Þór Jónsson kom inn á fyrir Bergþór Inga Smárason. Sigurbergur Bjarnason kom inn á á 93. mínútu fyrir Kenneth Hogg. Þróttarar jöfnuðu í uppbótartíma eða á 94. mínútu leiksins og staðan því 1-1 en það urðu lokatölur leiksins.
Hilmar Bragi Bárðarsson tók meðfylgjandi myndir í Njarðvík í dag.
Mörk leiksins:
1-0 Neil Slooves ('59)
1-1 Karl Brynjar Björnsson ('94)