Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Miðvikudagur 26. júlí 2000 kl. 13:17

Jafntefli í nágrannaslag

Suðurnesjaliðin Grindavík og RKV skildu jöfn, 2-2 í leik liðanna í gærkvöld, en leikið var í Grindavík. Liðin hafa mæst tvisvar áður á þessu sumri í deild og bikar og unnið sitt hvorn sigurinn, RKV í bikarnum og Grindavík í deildinni. Leikurinn einkenndist helst af gríðarlegri baráttu beggja liða, eins og gjarnan er þegar nágrannalið mætast. Það voru þó heimastúlkur sem skoruðu fyrsta mark leiksins, en þar var að verki Heiða Sólveig Haraldssóttir sem sólaði í gegnum vörn RKV og renndi boltanum framhjá Hönnu Kjartansdóttur í markinu. RKV stúlkur bættu þá í leik sinn, en þær voru betri nánast allan fyrri hálfleikinn. Þær uppskáru ekki fyrr en um miðjan fyrri hálfleikinn, þegar Lóa Björg Gestsdóttir fylgdi eftir eigin vítaspyrnu og jafnaði metin fyrir gestina. Staðan í hálfleik því jöfn 1-1 og ljóst að spennandi síðari hálfleikur var fyrir höndum. Grindavíkurstúlkur mættu tvíefldar til síðari hálfleiks og aftur skoraði Heiða Sólveig, þegar aðeins tvær mínútur voru liðnar af hálfleiknum. Þetta var það sem þurfti til að vekja RKV og tóku gestirnir nú við sér og voru betri það sem eftir lifði leiks. Þegar um 20 mínútur voru til leiksloka skoruðu RKV-stúlkur annað jöfnunarmark sitt í leiknum, eftir mikla stórskotahríð að marki Grindvíkinga. Sara, markvörður Grindvíkinga varði þrívegis áður en Lilja Íris Gunnarsdóttir þrumaði boltanum í netið og jafnaði metin fyrir RKV. Það má segja að það hafi verið Söru, markverði að þakka ásamt Ernu í vörninni að ekki fór verr fyrir Grindavík í leiknum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024