Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Jafntefli í moldarsvaðinu á Keflavíkurvelli
Laugardagur 29. september 2007 kl. 17:59

Jafntefli í moldarsvaðinu á Keflavíkurvelli

Síðustu umferð Landsbankadeildar karla í knattspyrnu lauk í dag þar sem Keflvíkingar gerðu 3-3 jafntefli við ÍA á Keflavíkurvelli. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar eftir 20 ára bið með 1-0 sigri gegn HK og Víkingur féll í 1. deild eftir 1-3 ósigur gegn FH í Víkinni. Hallgrímur Jónasson skoraði tvívegis fyrir Keflavík í dag en Guðjón Árni Antoníusson gerði eitt mark. Þeir Bjarni Guðjónsson, Jón Vilhelm Ákason og Vjekoslav Svadumovic gerðu mörk ÍA.

Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru litlar sem engar á Keflavíkurvelli í dag og völlurinn varð á örskotsstundu eitt moldarsvað. Stuðningsmannasveitir liðanna voru í góðum gír og sungu og trölluðu allan leikinn þrátt fyrir veðurbarninginn en sveitirnar áttu eftir að vekja mikla lukku síðar í leiknum.

Það dró snemma til tíðinda á Keflavíkurvelli þegar Hallgrímur Jónasson kom Keflavík í 1-0 með góðu skallamarki. Marco Kotilainen sendi þá boltann af hægri kantinum fyrir markið þar sem Hallgrímur var vel staðsettur og skilaði boltanum í netið.

Ekki leið á löngu áður en Skagamenn náðu að jafna metin en það gerði Vjekoslav Svadumovic á 15. mínútu leiksins eftir að boltinn barst til hans í Keflavíkurteignum eftir nokkuð klafs. Svadumovic lét vaða á markið af stuttu færi og skoraði fram hjá Bjarka í markinu og staðan 1-1.

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður á Keflavíkurvelli létu mörkin ekki á sér standa og á 19. mínútu kom Hallgrímur Keflvíkingum í 2-1 með góðu skoti rétt utan við teig. Boltinn fór í slánna og þaðan í netið og fögnuðu Keflvíkingar vel þessu glæsimarki Hallgríms. Allt annað var að sjá til Keflavíkurliðsins í dag sem þennan síðari hluta sumars hefur átt geysilega erfitt uppdráttar.

Yfirburðir Keflvíkinga héldu áfram og á 26. mínútu kom Guðjón Árni Antoníusson heimamönnum í 3-1 en Skagamenn náðu að klóra í bakkann fyrir leikhlé með marki frá Bjarna Guðjónssyni á 44. mínútu.

Staðan 3-2 í hálfleik fyrir Keflavík og bæði lið að leggja sig vel og mikið fram og sendu veðurguðunum langt nef í dag. Knattspyrnan sjálf sem liðin voru að leika var ekki mikið fyrir augað sökum aðstæðna en mikil bleyta á vellinum olli því að boltinn stoppaði oft í forarpyttum og þá voru leikmenn beggja liða á köflum eins og beljur á svelli.

Nokkuð kapp var af leikmönnum liðanna í síðari hálfleik en Skagamenn náðu að jafna metin á 64. mínútu. Markið var skráð á Jón Vilhelm Ákason en jöfnunarmarkið er óhætt að skrifa á mistök í vörn heimamanna.

Ekki urðu mörkin fleiri í leiknum og því skildu liðin jöfn 3-3. Keflavík lauk því knattspyrnusumrinu í 6. sæti Landsbankadeildarinnar með 21 stig en Skagamenn eru með öruggt Intertotosæti eftir að hafa hafnað í 3. sæti deildarinnar með 30 stig.

Fyrir leikinn höfðu margir áhyggjur af því að ekki yrði ósennilegt að allt myndi loga í handalögmálum á vellinum en svo var ekki og ljóst að leikmenn beggja liða hafa unnið vel úr því leiðindaatviki sem átti sér staða uppi á Skipaskaga fyrr í sumar. Kristinn Jakobsson sem dæmdi fyrri leik liðanna var einnig dómari leiksins í dag og stóð sig með mikilli prýði. Þó var augljóst að hann ætlaði ekki að láta hanka sig á neinu og því sáust að mörgum fannst nokkuð skringileg spjöld á lofti en það kom ekki að sök.

Stuðningsmannasveitir liðanna fóru á kostum í dag og í hálfleik tóku sveitirnar sig til og skiptu á búningum og liðsmenn Pumasveitarinnar fóru íklæddir ÍA búningum yfir á gestasvæðið og hvöttu þar áfram Skagamenn. Slíkt hið sama gagnvart Keflavík gerðu stuðningsmenn ÍA og setti þetta skemmtilegan svip á stúkuna. Aðrir stuðningsmenn liðanna tók vel í þetta uppátæki og var ekki annað að sjá en að fólk hefði almennt haft gaman af þessu uppátæki stuðningssveitanna. Ekki er vitað til þess að þetta hafi áður verið gert á íslenskum knattspyrnuleik en einhverntíma er allt fyrst. Þessi uppákoma sveitanna var kannski táknræn í bland við leikinn því svo virðist sem að öll úlfúð millum liðanna sé frá og að allir hafi getað snúið baki við stóra markamálinu uppi á Skaga fyrr í sumar.

 

VF-Myndir/ [email protected] - Á efri myndinni sést hvar Keflvíkingar þakka stuðningsmönnum sínum fyrir sumarið og hnegja sig að hætti hússins. Á neðri myndinni er Joey Drummer, einn forsprakka Pumasveitarinnar, íklæddur búningi Skagamanna þegar stuðningsmannasveitirnar brugðu á leik á Keflavíkurvelli í dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024