Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Jafntefli í hörkuleik
Madison Wolfbauer skoraði glæsimark með þrumuskoti í upphafi leiks. Mynd úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 11. ágúst 2023 kl. 11:00

Jafntefli í hörkuleik

Keflavík og FH skildu jöfn þegar liðin mættust á HS Orkuvellinum í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í gær. Markvörður FH sá til þess að Keflavík tók ekki sigurinn þegar hún varði ótrúlega skot frá Ameera Abdella Hussen í síðari hálfleik.

Keflavík komst yfir í upphafi leiks með frábæru skoti frá Madison Wolfbauer  af löngu færi (3'). Hún fékk boltann utan teigs, lét vaða á markið og boltinn hafnaði í bláhorninu, óverjandi fyrir markvörð FH.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gestirnir jöfnuðu leikinn á 36. mínútu þegar Mackenzie Marie George náði að spila sig í gegnum vörn Keflavíkur og náði góðu skoti, vörnin hefði getað gert betur þarna en það skal ekki tekið af George að hún gerði vel.

Allt jafnt í hálfleik og í þeim seinni byrjuðu Keflvíkingar af krafti en þegar leið á hann komust FH-ingar betur inn í leikinn. Hættulegasta færi hálfleiksins átti Ameera Abdella Hussen, sem fékk leikheimild með Keflavík í gær. Hussen náði þá góðu skoti inni í markteig FH en Herdís Halla Guðbjartsdóttir, í marki FH, sýndi snörp viðbrögð og varði stórkostlega á marklínu.

Ameera Abdella Hussen er gengin til liðs við Keflavík og átti góða innkomu í seinni hálfleik.

Hvorugt lið gaf tommu eftir en fleiri urðu mörkin ekki. Keflavík situr áfram í fallsæti, jafnt ÍBV að stigum en með lakara markahlutfall. Keflvíkingar halda til Eyja í næstu umferð og má búast við hörkuleik enda mikið í húfi fyrir bæði lið.