Jafntefli í grannaslag
Ekki tókst Vogamönnum að vera fyrsta liðið til að vinna Víðismenn í sumar. Leikurinn fór frekar fjörlega á stað og skoruðu Víðismenn mark eftir þrjár mínútur. Var þar að verki Einar Karl Vilhjálmsson sem fylgdi eftir föstu leikatriði og potaði honum yfir línuna eftir moð í teignum.
Eftir markið var þetta stál í stál. Mikið um tæklingar og ekki mikið um færi. Það var ekki fyrr en undir lok fyrri hálfleiks sem Þróttarar náðu að jafna, boltinn fór manna á milli og það var við hæfi að fyrirliði Þróttar sem fór fyrir sínum í gærkvöldi kláraði sóknina. Hörður Ingþór Harðarson á 45. mín. Staðan því 1-1 í hálfleik.
Seinni hálfleikur var mun fjörlegri heldur en sá fyrri. Færi á báða bóga, Þróttarar kannski aðeins meira með boltann og líklegri. Arnar Smárason átti hörkuskot sem Rúnar Gissurarson varði glæsilega frá honum, leikar enduðu því 1-1 í þessum Suðurnesjaslag. Skemmtilegur leikur, flott umgjörð hjá Vogamönnum og vel mætt á völlinn í gærkvöldi hjá Vogamönnum sem hafa verið frægari fyrir Vogaídýfur heldur en boltaspark.