Jafntefli í botnslagnum
Grindavík og Þróttur gerðu jafntefli, 1-1, í fjörugum botnslag á Grindavíkurvelli í gær.
Leikurinn hófst með mikilli baráttu og var Gylfi Orrason, dómari, ekki banginn við að deila út gulu spjöldunum. Fengu fjögur slík að fara á loft á fyrstu 12 mínútum leiksins.
Þróttarar voru annars skeinuhættari og voru meira með boltann. Þeir komust svo yfir á 17. Mínútu með glæsilegu skoti Halldóri Arnars Hilmissyni og fögnuðu Þróttarar vel, enda í miður góðum málum á botni deildarinnar. Halldór fékk boltann við vítateigslínuna og lét vaða á markið þar sem Boban Savic kom engum vörnum við.
Upp úr miðjum háfleiknum fór loks að örla á sóknartilburðum Grindvíkinga þar sem þeir áttu ágæt tækifæri. Mounir Ahandour og Sinisa Valdimar Kekic reyndu báðir á Fjalar Þorgeirsson í marki Þróttara sem sá þó við þeim félögum.
Þróttarar voru ífrið betri aðilinn í fyrri hálfleik og fóru inn í klefa með verðskuldaða forystu.
Grindvíkingar mættu sprækari til leiks og fengu nokkur færi sem þeir náðu þó ekki að notfæra sér.
Eftir um klukkustundar leik átti Magnús Þorsteinsson skot sem fór forgörðum eftir gott spil Grindvíking og stuttu síðar átti Óskar Hauksson góða aukaspyrnu rétt framhjá marki.
Mark Grindvíkinga lá í loftinu og á 68. mínútu fékk Andri Hjörvar Albertsson góða sendingu innfyrir vörn Þróttar en Fjalar varði skot hans. Magnús fékk hins vegar boltann og vipaði laglega yfir varnarmenn utan úr teig og jafnaði leikinn,1-1.
Hefði margur haldið að nú færu hlutirnir að gerast, sérstaklega þar sem Dusan Jaic, miðvörður Þróttar, fékk sitt annað gula spjald og var vísað af velli þegar um 15 mínútur lifðu enn af leiknum.
Þróttarar lögðu hins vegar áherslu á að halda fengnum hlut og pökkjuðu í vörn sem Grindvíkingar fundu ekki smugu á.
Magnús Þorsteinsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir Grindavík á heimavelli í leiknum og sagði tilfinninguna góða. „Það hefði mátt koma fyrr en þetta var mjög gaman. Við vorum hins vegar ekki nógu beittir fram, sérstaklega eftir að þeir misstu manninn útaf. Við vorum ekki að hafa nógu gaman af þessu og vorum ekki að gera eins og hafði verið lagt upp. Það var stefnt að því að fá 3 stig í dag.“
Grindvíkingar mæta Keflvíkingum í næstu umferð og hittir Magnús þar fyrir sína gömlu félaga og segist hlakka til að spila á sínum gamla heimavelli.
VF-myndir/Þorgils