Jafntefli í baráttuleik
Grindavík og Fjarðabyggð skilu jöfn í toppleik 1. deildar karla í knattspyrnu í dag, 0-0.
Leikurinn var ekki mikið fyrir augað þar sem hann einkenndist af mikilli baráttu umfram allt, en markfærin voru fátíð á báða bóga. Lærisveinar Þorvaldar Örlygssonar í liði Fjarðabyggðar eru afar skipulagðir í varnaraðgerðum sínum og gáfu sóknarmönnum heimaliðsins ekkert. Grindvíkingar, sem eru enn efstir í deildinni, náðu því ekki að hrista Austfirðinga af sér og eru ekki að ná að stinga hin liðin af. Það er hins vegar ljóst, þó langt sé eftir af tímabilinu, að Grindvíkingar eru komnir með annan fótinn aftur upp í úrvalsdeild þar sem efstu þrjú liðin fara upp eftir tímabilið.
VF-mynd/Þorgils