Jafntefli hjá Víðismönnum í þrettán spjalda leik
Víðir og Dalvík/Reynir mættust á Nesfisk-vellinum í dag í afar mikilvægum leik fyrir bæði lið en Víðir í situr í þriðja neðsta sæti 2. deildar á meðan Dalvík/Reynir er í því næstneðsta. Víðismenn náðu í tvígang forystu en gestirnir jöfnuðu á 8. mínútu uppbótartíma.
Það voru Víðismenn sem byrjuðu leikinn betur og komust yfir á 8. mínútu þegar Pawel Grudzinski skoraði úr hornspyrnu en eftir mikinn darraðadans í teig Víðis jafnaði Dalvík/Reynir metin á 30. mínútu.
Guyon Philips kom Víðismönnum aftur yfir með skallamarki eftir hornspyrnu í lok fyrri hálfleiks og staðan því 2:1 þegar flautað var til leikhlés.
Það leit út fyrir að Víðismenn væru að landa mikilvægum sigri en þegar seinni hálfleikur var nánast liðinn fékk Dalvík/Reynir hornspyrnu og úr henni fór knötturinn í hönd leikmanns Víðis og því dæmd vítaspyrna í þann mund sem leikurinn var að renna út. Gestirnir jöfnuðu úr vítinum (90'+8) og grátlegt jafntefli niðurstaðan.
Leikurinn fór fram í afleitu veðri og ekki fór mikið fyrir fallegri knattspyrnu, þeim mun fleiri brot sáust og tólf gul spjöld og eitt rautt fóru á loft.