Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Jafntefli hjá Keflavík og FH
Laugardagur 18. júlí 2009 kl. 20:46

Jafntefli hjá Keflavík og FH


Keflavík nældi sér í stig gegn Íslandsmeisturum FH þegar liðin gerðu jafntefli, 2-2, í úrvalsdeild karla í knattspyrnu í kvöld.


FH-ingar, sem léku á heimavelli, voru með forystu á lokakaflanum og virtust líklegir til að bæta enn við öruggt forskot sitt á toppi deildarinnar, en Keflvíkingar jöfnuðu á ögurstundu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Heimamenn byrjuðu mun betur en Keflvíkingar unnu sig smátt og smátt inn í leikinn. Þeir Haukur Ingi Guðnason og Magnús Þorsteinsson fengu kjörin færi til að skora fyrsta markið þegar Símun Samuelsen lagði boltann upp fyrir Hauk Inga sem var í ákjósanlegu færi. Daði Lárusson varði skot hans út í teig þar sem Magnús kom aðvífandi, en hann skaut hátt yfir markið í dauðafæri.


Það var svo Guðjón Árni Antoníusson sem kom gestunum yfir skömmu fyrir hálfleik þegar hann skallaði laglega inn fyrirgjöf Hauks Inga úr aukaspyrnu.


Eftir rólega byrjun á seinni hálfleik jafnaði Davíð Þór Viðarsson metin fyrir meistarana þegar hann skallaði inn hornspyrnu frá Tryggva Guðmundssyni eftir klukkustundar leik. Tryggvi var aftur á ferðinni korteri síðar þegar hann tók aðra hornspyrnu sem rataði beint á Atla Guðnason sem kom FH-ingum yfir.


FH-ingar fengu svo tækifæri til að gulltryggja sigurinn þegar þeir fengu víti þegar skammt var til leiksloka. Lasse Jörgensen, hinn trausti markvörður Keflvíkinga, varði hins vegar spyrnuna frá Matthíasi Vilhjálmssyni.


Allt stefndi í sigur FH sem eru langt á undan öðrum liðum í deildinni, en þá sendi Símun knöttinn ínn í teig á Magnús Þorsteinsson sem skoraði afar mikilvægt mark á síðustu mínútu venjulegs leiktíma, ekki það fyrsta af þeirri sort hjá Magnúsi.


Þar við sat og Keflvíkingar sennilega stiginu fegnir enda FH-ingar gríðarlega öflugir. FH hefur engu að síður 13 stiga forskot á toppnum, en þar fyrir neðan er þéttur pakki liða, KR með 21 stig og svo Stjarnan, Fylkir og Keflavík með 20 stig. Keflavík er þó með lakasta markahlutfallið í þeim hópi og hefur einnig leikið einum leik fleira.


Ánægjuleg tíðindi voru fyrir Keflvíkinga að Hólmar Örn Rúnarsson, sem hefur verið frá í nokkurn tíma sökum fótbrots, lék á ný með liðinu og stóð sig vel þar til honum var skipt af velli undir lok leiksins.


Staðan í deildinni