Jafntefli hjá Keflavík og Blikum - UMFG náði stigi gegn KR
Keflavík styrkti stöðu sína í botnbaráttu Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu eftir 1-1 jafntefli við Íslandsmeistara Breiðabliks á Nettó vellinum í Keflavík síðdegis.
Blikar komust yfir á 19. mínútu með marki Tómasar Óla Garðarssonar sem skoraði framhjá Ómari Jóhannssyni. Keflvíkingar voru mun aðgangsharðari á vellinum og áttu nokkur skot og Ísak Þórðarson skoraði flott mark með skalla á 40. mínútu en var dæmdur rangstæður. Markið gaf Keflvíkingum auka kraft og þeir uppskáru jöfnunarmark á markamínútunni, þeirri 43. Jóhann Birnir Guðmundsson skaut hægra megin í teignum, markaskorari Blika, Tómas Óli reyndi að bjarga rétt við línuna en ýtti boltanum yfir hana. Staðan 1-1 í hálfleik.
Jóhann Birnir sem var besti maður Keflavíkur í leiknum, mjög ógnandi og átti nokkur góð skot, komst með boltann í teig Blika og virtist vera fara framhjá markverði þeirra en var felldur (eins og sjá má greinilega á mynd VF) og Gunnar Jarl dómari benti á vítapunktinn. Aðstoðardómari á línunni veifaði flagginu og Jarlinn breytti dómi sínum í leikaraskap við furðu marga og gaf Jóhanni gult spjald.
Leikurinn var nokkuð fjörugur í seinni hálfleik og liðin sköpuðu sér fleiri færi en í fyrri hálfleik. Hilmar Eiðsson var ógnandi og átti tvö góð færi en gestirnir áttu líka góð færi og einu sinni fór boltinn í slána hjá Ómari markverði Keflavíkur en síðan yfir markið. Jafntefli nokkuð sanngjörn úrslit þó heimamenn séu örugglega ekki sammála því en þeir voru á heildina litið sterkari aðilinn í leiknum og sýndu oft góð tilþrif. Keflvík átti tíu skot á mark Blika á móti fimm hjá gestunum. Heimamenn fengu átta hornspyrnur á móti aðeins þremur hjá Blikum.
„Auðvitað hefði maður viljað sjá þrjú stig og okkur fannst súrt að fá ekki víti þegar Jóhannn Birnir var felldur en jafntefli var heldur ekki svo slæmt. Það er hugur í hópnum og við náðum að leika oft á tíðum vel á milli okkar. Við erum brattir og bjarsýnir í baráttunni og mætum tilbúnir í næsta leik gegn Fram,“ sagði Guðjón Árni Antóníusson, fyrirliði Keflavíkur, eftir leikinn.
Grindavík náði í stig í Frostskjóli
Óli Baldur Bjarnason tryggði heimamönnum í Grindavík jafntefli gegn toppliði KR í Frostaskjólinu í dag. Hann skoraði jöfnunarmarkið með bakfallsspyrnu á 78. mínútu.
Grindvíkingar sóttu mikilvægt stig á útivelli gegn efsta liði deildarinnar og það gæti reynst þeim mikilvægt í lokabaráttu deildarinnar.
Hér er Jóhann Birnir (og á efstu myndinni) á leið framhjá markverði Blika sem setur greinilega höndina í fót Keflvíkingsins. Jóhann Birnir fékk dæmdan á sig leikaraskap fyrir þetta sem margir voru mjög óhressir með, ekki síst Jóhann sjálfur.
Boltinn á leið í mark Blika eftir skot Jóhann Birnis á 43. mín.
Heimamenn fagna jöfnunarmarkinu. Á myndinni að neðan má sjá Ísak Þórðarson skalla boltann í mark Blika en markið var dæmt af vegna rangstöðu. VF-myndir/hilmarbragi.