Jafntefli en áttu skot í stöng og slá
Keflvíkingar sýndi gríðarlega baráttu þegar þær tóku á móti toppliði Vals í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í gær. Leiknum lyktaði með jafntefli (1:1) en gestirnir brenndu af vítaspyrnu seint í leiknum.
Keflavík byrjaði leikinn betur og Valskonur voru heillum horfnar í fyrri hálfleik. Dröfn Einarsdóttir átti stórgóðan leik eins og flestar í Keflavíkurliðinu, eftir um korters leik átti hún góða fyrirgjöf á Linli Tu sem náði hörkuskoti í stöngina.
Keflvíkingar náðu svo forystunni á 39. mínútu þegar Alma Rós Magnúsdóttir vann boltann af harðfylgi á miðjunni og sótti hratt, boltinn barst út á kantinn til Sandra Voitane sem sendi fyrir markið og þar var Linli Tu vel staðsett og sendi boltann framhjá markverði Vals. Staðan óvænt, Keflavík búið að vera talsvert betri aðilinn og fór inn í hálfleikinn með 1:0 forystu.
Keflavík var nálægt því að tvöfalda forystuna í byrjun seinni hálfleiks þegar þær sóttu hratt, Dröfn geystist þá upp kantinn og náði góðu skoti úr þröngri stöðu. Markvörður Vals átti ekki möguleika að ná til boltans sem hafnaði í þverslánni og gestirnir sluppu með skrekkinn.
Það var skammt stórra högga á milli og Valskonur jöfnuðu leikinn í næstu sókn (49'). Markið kom eftir að vörn Keflavíkur mistókst að hreinsa frá, boltinn hafnaði í samherja og féll fyrir fætur sóknarmann Vals sem kláraði færið vel.
Gestirnir voru mun meira með boltann í seinni hálfleik og stjórnuðu leiknum en vörn Keflavíkur var þétt fyrir og gaf fá færi á sér. Keflvíkingar gerðu oft vel þegar þær sóttu hratt og náðu að valda usla í vörn Vals.
Þegar um tíu mínútur lifðu leiks fékk Valur vítaspyrnu þegar Anita Lind Daníelsdóttir braut á leikmanni Vals innan teigs. Fanndís Friðriksdóttir steig á punktinn en sendi botlann himinhátt yfir markið, þar með fór síðasta færi Vals og fleiri urðu mörkin ekki.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók viðtal við Sigurrós Eir Guðmundsdóttur að leik loknum en hún leysti stöðu hægri bakvarðar vel af hendi í gær í fjarveru Caroline McCue Van Slambrouck. Viðtalið er í spilaranum hér að neðan og myndasafn neðst á síðunni.