Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Jafntefli á Njarðvíkurvelli, Grindavík tryggir sig á toppnum með sigri
Þriðjudagur 3. júlí 2007 kl. 00:27

Jafntefli á Njarðvíkurvelli, Grindavík tryggir sig á toppnum með sigri

Njarðvíkingar geta nagað sig í handarbökin yfir að hafa ekki borið meira út býtum þegar þeir gerðu jafntefli við Reyni í vígsluleik nýja Njarðvíkurvallar í kvöld. Lokatölur voru 2-2 eftir að Njarðvíkingar leiddu, 2-0, í hálfleik, en tvö mörk frá lánsmanninum Stefáni Erni Arnarssyni tryggðu gestunum stigið. Þar má einnig kenna um nýstaárlegri hönnun á mörkunum, en nánar verður vikið að því neðar í þessum pistli.

Eftir leikinn eru liðin sem fyrr í 8. og 9. sæti 1. deildar. Grindavík lék einnig í kvöld og sigraði ÍBV í toppslag 1. deildarinnar, 3-1. Mörk Grindvíkinga skoruðu þeir Andri Steinn Birgisson, Paul McShane og Slóveninn Ivan Firer.

Njarðvíkingar komu ákveðnari til leiks á Njarðvíkurvelli í kvöld og áttu mun fleiri færi í upphafi þar sem Alfreð Jóhannsson var afar erfiður við að eiga fyrir varnarmenn Reynis. Þá lentu þeir sínkt og heilagt í vandræðum þegar Njarðvíkingar áttu hornspyrnur og komu bæði mörkin einmitt upp úr slíkum.

Það fyrra kom á 15. mínútu og var þar að verki Rafn Markús Vilbergsson, sem var óvaldaður á fjærstöng eftir hornspyrnu Sverris Þórs Sverrissonar og átti ekki í vandræðum með að smella boltanum inn.

Seinna markið skoraði Alfreð á 24. mín en hann reis allra hæst í teignum og skallaði framhjá Atla Jónassyni í markinu. Reynismenn hafa átt í miklum vandræðum með föst leikatriði og sást það berlega í kvöld.

Eftir að hafa byrjað illa komu Reynismenn sér inn í leikinn og náðu nokkrum góðum sóknum fram að hálfleik. Heimamenn voru engu að síður líklegri til afreka því Alfreð reyndi verulega á Atla í markinu, en hann stóð sína vakt vel.

Í seinni hálfleik óx gestunum ásmegin en þeir voru ljónheppnir að dómari leiksins sá ekki þegar Njarðvíkingurinn ungi og efnilegi Franz Elvarsson skoraði löglegt mark úr teignum. Hann skallaði boltann upp í þaknetið, en þar er einhverskonar þverpípa (sjá mynd) sem knötturinn skaust af og taldi dómarinn að þar hafi hann farið í slá.

Eftir því sem á leið datt leikur Njarðvíkinga niður en þá tók fyrrnefndur Stefán til sinna ráða. Hann var réttur maður á réttum stað þegar Albert Sævarsson varði vel í stöng og út í teig, en þar átti Stefán ekki í vandræðum með að skora og minnka muninn í 2-1 á 69. mínútu. Það var svo 7 mínútum síðar að Stefán var aftur á ferð. Reynismenn fóru í hraða sókn og eftir gott spil átti Stefán skot sem Albert varði. Knötturinn barst svo aftur til hans og þá brást honum ekki bogalistin.

Þegar leikurinn var flautaður af máttu Reynismenn prísa sig sæla að hafa stolið einu stigi en Njarðvíkingar geta kennt eigin værukærð um þessu tvö töpuðu stig.

Næstu leikir í deildinni verða á fimmtudag og föstudag.

Staðan í deildinni

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024