Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Jafntefli á Kópavogsvelli
Þriðjudagur 1. júlí 2008 kl. 00:14

Jafntefli á Kópavogsvelli

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keflvíkingar máttu sætta sig við jafntefli, 2-2, gegn Breiðabliki í Landsbankadeild karla í kvöld.

 

Leikurinn, sem fór fram á Kópavogsvelli, var ansi fjörlegur og skemmtilegur áhorfs. Bæði lið fengu ágæt færi, en Keflvíkingar komust fyrr á blað. Þar var að verki Blikinn Nenad Zivanovic sem fékk boltann í sig á 17. mínútu eftir fyrirgjöf frá Símun Samulesen og þaðan hafnaði hann í netinu.

 

Staðan í hálfleik var 0-1 en heimamenn höfðu fram að því sótt meira og skapað sér góð færi.

 

Í upphafi seinni hálfleiksins var hlaupagikkurinn Patrik Redo í liði Keflavíkur í aðalhlutverki. Hann fór illa með tvö dauðafæri áður en hann náði loks að koma knettinum inn fyrir línuna á 52. mínútu. Símun lék laglega á Casper Jacobsen og renndi boltanum á Redo sem kláraði færið örugglega.

 

Blikar höfðu ekki sagt sitt lokaorð í leiknum og minnkuðu muninn strax tveimur mínútum síðar þar sem Zivanovic kvittaði fyrir sjálfsmarkið með skoti úr teig.

 

Arnar Grétarsson jafnaði svo leikinn á 76. mínútu með glæsilegu marki af löngu færi, en þrátt fyrir góð færi á báða bóga eftir það varð jafntefli niðurstaðan.

 

Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflvíkinga, sagðist í samtali við Víkurfréttir  vera sáttur við stigið sem fékkst í kvöld, en tilfinningarnar væru þó blendnar. „Það er mjög sterkt að koma hingað í Kópavoginn og sækja stig gegn góðu liði, en hins vegar er ég ósáttur við að missa niður tveggja marka forskot. Blikar voru ánægðir með sinn leik í kvöld sem þeir sögðu vera einn sinn besta á tímabilinu þannig að ég held að við megum bara vera sáttir þó að við höfum líka spilað vel og skapað okkur fullt af góðum færum.“

 

Keflvíkingar eru enn í öðru sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir FH, en toppliðin mætast einmitt í tveimur leikum á næstu dögum, fyrst á fimmtudag, í 16-liða úrslitum VISA-bikarsins og svo á sunnudag í Landsbankadeildinni. Báðir leikirnir fara fram á Sparisjóðsvellinum í Keflavík.

Staðan í deildinni

Mynd: Tomasz Þór Veruson, www.tomz.se