Jafnt í stórslagnum
Rauð spjöld og lúðrar á Nettóvellinum
Keflvíkingar og FH-ingar skildu jöfn 1-1 í toppslag Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Leikurinn fór fram á heimavelli Keflvíkinga, sem nú sitja í þriðja sæti deildarinnar með 10 stig eftir fimm umferðir. Tvö rauð spjöld fóru á loft á Nettóvellinum í kvöld í mjög fjörugum knattspyrnuleik.
Leikurinn hófst með látum. Framherjinn Elías Már Ómarsson var ekkert að tvínóna við þetta og kom Keflvíkingum yfir eftir aðeins þriggja mínútna leik. Eftir aukaspyrnu Sindra Snæs á kantinum mætti Elías á fjærstöngina og stýrði boltanum í netið af stuttu færi. Óskabyrjun heimamanna og Elías heldur áfram að skora.
Keflvíkingar voru nærri því nokkrum sinnum að bæta við marki þegar þeir sluppu inn fyrir vörn FH-inga, en markvörður gestanna var þó á tánum og var fljótur að hreinsa frá. Leikinn var skemmtilegur fótbolti í fyrri hálfleik og hlutirnir gerðust hratt. Keflvíkingar fóru með verðskuldaða forystu til búningsklefa í hálfleik. Lúðrar sem Sjálfstæðismenn gáfu stuðningsmönnum á leiknum voru að leggjast misvel í fólk á Nettóvellinum, en það er ekki hægt að segja annað en það hafi heyrst vel í áhorfendum.
Gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og virtust líklegir til þess að jafna leikinn. Eitthvað virtust FH-ingar einum of ákafir en Pétur Viðarsson fékk að líta sitt annað gula spjald og þar af leiðandi það rauða, þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Keflvíkingar því orðnir einum fleiri. Heimamenn tóku að herða sóknarleikinn og skömmu síðar átti fyrirliðinn Haraldur Freyr skot sem FH-ingar björguðu á marklínu. Skot varnarmannsins reynda kom eftir óbeina aukaspyrnu í teig FH-inga. Hafnfirðingar létu brottreksturinn ekki slá sig út af laginu og skiptu tveimur sóknar þenkjandi mönnum inn á þegar tæpur hálftími var til leiksloka. Það átti eftir að bera ávöxt síðar.
Fátt markvert gerðist á næstu mínútum en Keflvíkingar voru líklegri til þess að auka forystuna. Það kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar Atli Viðar Björnsson varamaður jafnaði metin fyrir FH þegar sjö mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Keflvíkingurinn Einar Orri fékk svo að fjúka af velli þegar skammt var eftir en hann fékk sitt annað gula spjald eftir að hann reiddist Hólmari Erni fyrrum Keflvíkingi, sem hafði brotið illa á Einari. Heyrst hefur að Einar hafi haft í hótunum við FH-inga, en slíkt á auðvitað ekki heima á knattspyrnuvellinum. Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði leiks og niðurstaðan því jafntefli.
Magnús Matthíasson í baráttunni við FH-inga.
Lið Keflavíkur:
Byrjunarlið:
1. Jonas Fredrik Sandqvist (m)
3. Magnús Þórir Matthíasson
4. Haraldur Freyr Guðmundsson
6. Einar Orri Einarsson
8. Bojan Stefán Ljubicic
10. Hörður Sveinsson
13. Unnar Már Unnarsson
16. Endre Ove Brenne
23. Sindri Snær Magnússon
25. Frans Elvarsson
28. Elías Már Ómarsson
Varamenn:
21. Sindri Kristinn Ólafsson (m)
5. Andri Fannar Freysson
7. Jóhann Birnir Guðmundsson
11. Magnús Sverrir Þorsteinsson
14. Halldór Kristinn Halldórsson
18. Theodór Guðni Halldórsson
27. Ray Anthony Jónsson