Jafnt í Njarðvík
Hvassviðri og kuldi settu mark sitt á leik Njarðvíkur og Völsungs í 1. deildinni í kvöld. Völsungar hófu leikinn með sterkan vind í fangið. Á 15. mínútu leiksins áttu Völsungar góða fyrirgjöf fyrir mark Njarðvíkinga sem endaði með því að Hermann Aðalgeirsson skaut rétt yfir markið í dauðafæri. Njarðvíkingar hertu í kjölfarið róðurinn en voru mikið að tapa boltanum og illa gekk á tíðum að byggja upp almennilegt spil á milli leikmanna. Magnús Ólafsson, framherji Njarðvíkinga, var atorkumikill í leiknum og á 45. mínútu fyrri hálfleiks sendi Einar Oddson boltann frá vinstri kantium inn á Magnús sem sneri af sér varnarmann Völsungs og skaut rétt yfir markið. Staðan því 0-0 í hálfleik.
Einungis 5 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik þegar Kristinn Agnarsson sendi boltann af hægri kantinum, inn á Eyþór Guðnason, sem komist hafði framhjá Ásmundi Gíslasyni, markmanni Völsunga, og renndi þá Eyþór boltanum á Magnús Ólafsson sem skoraði örugglega. Óeigingjarnt af Eyþóri sem sá tímanlega að Magnús var í mun betri aðstöðu til þess að skora en hann. Njarðvík 1-0 Völsungur. Eftir markið færðist aukin harka í leikinn og nokkrir leikmenn beggja liða fengu að líta gula spjaldið. Á 78. mínútu áttu sér stað slæm mistök í vörn Völsunga þegar þeir hugðust senda til baka á Ásmund markmann, Magnús Ólafsson komst inn í sendinguna og náði skoti á markið sem fór naumlega framhjá. Nokkuð gegn gangi leiksins náðu Völsungar að jafna leikinn á 81. mínútu, þar var á ferðinni Hermann Aðalgeirsson sem skoraði eftir hornspyrnu Völsunga. Staðan því 1-1 og tæpar 10 mínútur til leiksloka. Eftir markið sóttu Njarðvíkingar grimmt en náðu ekki að komast yfir á ný. Eyþór Guðnason átti fast skot yfir markið á 91. mínútu og Magnús Ólafsson, sem átti góðan leik í kvöld, reyndi bakfallsspyrnu undir lok leiksins en boltinn fór framhjá. Lokatölur leiksins því 1-1 og Njarðvíkingar því enn í 3. sæti 1. deildar með 14 stig.
Helgi Bogason, þjálfari Njarðvíkinga, var frekar ósáttur við að ná aðeins einu stigi út úr leiknum í kvöld. „Menn halda stundum þegar þeir eru með vindinn í bakið að sóknin komi bara að sjálfu sér. Við spiluðum mun betur í seinni hálfleik á móti vind og áttum miklu fleiri færi en Völsungar. Þeir náðu samt að skora þvert gegn gangi leiksins og það er einmitt það sem ég er óánægður með, hvað við klárum leikina stundum illa,“ segir Helgi. Næsti leikur Njarðvíkur verður á útivelli gegn Þrótti Reykjavík. „Sá leikur verður án efa mikill barningur,“ segir Helgi svo að lokum.
VF-mynd/ Úr leik Njarðvíkur og Þórs Akureyri fyrr í sumar