Jafnt í baráttuslag í Breiðholtinu
Deildin hálfnuð - neðsta sætið staðreynd
Keflvíkingar snéru heim úr Breiðholtinu í kvöld með 1 stig í farteskinu eftir mikinn baráttuleik gegn Leikni í 11. umferð Pepsí deildar karla. Liðin voru fyrir leikinn bæði í neðra hluta deildarinnar og gerði mikil bleyta leikmönnum erfitt fyrir en lokatölur urðu 1-1.
Keflvíkingar komust yfir strax á 6. mínútu leiksins þegar Magnús Þórir Matthíasson skallaði fyrirgjöf Sigurbergs Elíssonar í netið og botnliðið að sýna að þeir ætluðu sér heim með öll þrjú stigin. Næstu 20 mínúturnar einkenndustu af miklu klafsi og baráttu um boltann en rigningin varð þess valdandi að leikmenn beggja liða áttu erfitt með fóta sig.Leiknismenn voru að aðeins grimmari og uppskáru mark á 30. mínútu og var þar að verki Kristján Páll Jónsson með góðum skalla sem sigldi yfir Sindra í marki Keflvíkinga.
Fátt annað markvert gerðist í fyrri hálfleik og fóru liðin til búingsherbergja í stöðunni 1-1.
Leiknismenn hófu síðari hálfleikinn af krafti og áttu hrinu sókna á fyrstu 10 mínútum síðari hálfleiks þar sem litlu mátti muna að þeir tækju yfirhöndina en Sindri Kristinn Ólafsson í markinu varði það sem á markið kom.
Það var sama baráttan á löngum köflum í hálfleiknum en Leiknismenn þó ívið hættulegri fram á við. Heimamenn hefðu getað klárað leikinn á lokamínútum leiksins þegar markaskorarinn Kristján Páll Jónsson komst einn gegn Sindra í markinu en Sindri gerði vel og varði í hornspyrnu,
Þar við sat og skildu liðin því jöfn í leik þar sem bæði lið hefðu getað þegið öll þrjú stigin í baráttunni sem bíður þeirra í neðri helming Pepsí deildarinnar. Nú er deildin hálfnuð, 11 umferðir og 33 stig eftir í pottinum og næsta víst að Keflvíkingar hafa ekki efni á því að bjóða uppá 5 stig (neðstir í deildinni), -13 í markatölu (slakasta markatalan) og 24 mörk fengin á sig (það mesta í deildinni) ef að liðið ætlar sér ekki að spila í 1. deild að ári. Haukur Ingi Guðnason, þjálfari liðsins, segist ekki útiloka frekari liðsstyrk í félagaskiptaglugganum og að verið sé að skoða það mál. Að öðru leyti virtist hann nokkuð sáttur með að fara burt með 1 stig úr Breiðholtinu.
Nú tekur við síðari hluti deildarinnar og munu Keflvíkingar mæta liði Víkings á Víkingsvelli á sunnudaginn kemur í öðrum botnbaráttuslag þar sem mikið er að veði og munu Keflvíkingar geta m.a. spilað hinum bandaríska „Chuck“ sem að gekk í raðir liðsins í síðustu viku. Eitt stig er betra en ekkert en Keflvíkingar verða lengi að brúa bilið sem er á milli þeirra og öruggs sætis í delidinni geti þeir ekki unnið leiki gegn liðum í kringum þá í töflunni,