Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Jafnt hjá Keflavík í Mosfellsbænum
Sindri var mjög öruggur í markinu og átti allt sem kom nærri markteignum. Mynd úr safni Víkurfrétta.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 23. ágúst 2020 kl. 11:40

Jafnt hjá Keflavík í Mosfellsbænum

Keflvíkingar voru einir í efsta sæti Lengjudeildar karla fyrir leiki helgarinnar. Þeir mættu Aftureldingu á útivelli í jafnri og spennandi viðureign þar sem Mosfellsbæingar náðu að jafna leikinn í blálokin. Keflvíkingar eru eftir sem áður á toppi deildarinnar en jafnir Fram að stigum. ÍBV er einu stigi á eftir Keflavík og Fram, þá koma Leiknismenn fjórum stigum frá toppnum en þeir leika gegn Þrótti Reykjavík síðar í dag.

Það voru Keflvíkingar sem voru fyrri til að skora þegar þeir unnu boltann af Mosfellingum og brunuðu fram þar sem Ari Steinn Guðmundsson afgreiddi boltann í netið (8').

Fyrri hálfleikur var kaflaskiptur, fyrri hluta hans var Keflvík meira við stjórn en svo skiptist það um miðjan hálfleikinn og Afturelding tók yfirhöndina. Afturelding náði að jafna leikinn á 37. mínútu. 1:1 í hálfleik.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sanngjörn úrslit en óþörf

Í síðari hálfleik voru Keflvíkingar aftur fyrri til að skora, þar var auðvitað að verki ástralska undrið Joey Gibbs sem fékk boltann eftir mistök í vörn heimamanna (50'). Þessi drengur reimar ekki á sig skóna án þess að skora.

Seinni hálfleikur var lifandi og liðin skiptust á að sækja. Mörg færi fóru forgörðum og fleiri mörk hefðu hæglega getað verið skoruð. Sindri Kristinn Ólafsson var mjög öruggur í sínum aðgerðum og hirti allar fyrirgjafir sem komu nálæt markteignum.

Þegar skammt var til leiksloka náðu Keflvíkingar þó ekki að hreinsa frá fyrirgjöf Aftureldingar og Mosfellingar fengu tíma til að skora óþarft jöfnunarmark (89').

Niðurstaðan 2:2 jafntefli og Eysteinn Hauksson, þjálfari Keflvíkinga, var að vonum svekktur eftir leikinn. Í viðtali við Fótbolti.net sagði hann m.a.: „Mér er efst í huga svekkelsi að missa þetta niður [...] Þetta var algjörlega að ganga upp þegar við settum annað markið en þeir ná svo einni langri aukaspyrnu sem skoppar tvisvar í teignum og það eigum við ekki að sætta okkur við.“