Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mánudagur 8. júlí 2002 kl. 12:52

Jafnt gegn Grindavík gegnum árin

Keflavík og Grindavík hafa leikið saman í efstu deild frá árinu 1995. Jafnræði hefur verið með liðunum í gegnum árin og hafa þau reyndar unnið jafnmarga leiki. Keflavík og Grindavík hafa leikið 14 leiki í efstu deild. Hvort lið hefur unnið 6 leiki en tveimur leikjanna lauk með jafntefli. Markatalan er 19-17 fyrir Grindavík. Stærsti sigur Keflavíkur var 3-0 heimasigur árið 1998 en Grindavík vann 4-0 á sínum heimavelli árið 1996. Mesti markaleikur liðanna var 3-2 sigur Grindvíkinga árið 1999. Keflavík hefur ekki tekist að sigra í þremur síðustu heimaleikjum gegn Grindvíkingum; tveimur þeirra hefur lokið með ósigri en einum með jafntefli. Á síðasta tímabili vann Keflavík 2-1 útisigur á Grindavík í 1. umferð mótsins; Haukur Ingi Guðnason og Þórarinn Kristjánsson skoruðu mörkin. Grindavík vann hins vegar 2-0 í Keflavík í seinni leiknum.

Keflavík og Grindavík léku bæði í B-deildinni árin 1990-1992. Þau léku þá sex leiki; Keflavík vann 3, Grindavík einn en tveimur leikjum lauk með jafntefli. Markatalan var 13-9, Keflavík í vil.

Keflavík og Grindavík hafa aðeins mæst einu sinni í bikarkeppninni. Það var árið 1991 og skoruðu Keflvíkingar eina mark leiksins og var Óli Þór Magnússon þar á ferð.

Af leikmönnum Keflavíkurliðsins í dag hefur Guðmundur Steinarsson skorað 3 mörk gegn Grindavík í efstu deild; Haukur Ingi Guðnason, Ragnar Steinarsson og Þórarinn Kristjánsson hafa skorað 2 mörk. Gunnar M. Jónsson skoraði einu sinni gegn Grindvíkingum í B-deildinni. Þess má geta að Eysteinn Hauksson hefur skorað 3 mörk fyrir Keflavík gegn Grindavík í efstu deild og Gestur Gylfason eitt mark í B-deild en þeir félagar leika nú með Grindavík eins og kunnugt er.

Samtals árangur Keflavíkur gegn Grindavík í deild og bikar er því 21 leikur; 10 sigrar, 4 jafntefli og 7 töp. Markatalan er 31-28 fyrir Keflavík.

Af vef Keflavíkur.
(Heimild: Íslensk knattspyrna / Víðir Sigurðsson)
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024