Jafna Grindvíkingar metin í kvöld?
Ekki tapað í Ljónagryfjunni síðan 2008
Í kvöld mætast öðru sinni grannarnir, Njarðvík og Grindavík í undanúrslitum úrslitakeppni Domino's deildar karla í körfubolta. Njarðvíkingar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu fyrstu viðureign liðanna í Grindavík á föstudag.
Ljónagryfjann er staðurinn í kvöld en leikar hefjast klukkan 19:15. Njarðvíkingum er sjálfsagt ansi létt eftir að hafa sigrað Grindvíkinga í síðasta leik, en það er í fyrsta sinn síðan í október árið 2009 sem grænir vinna viðureign liðanna. Lengra er síðan Njarðvíkingar náðu að leggja Grindvíkinga í Ljónagryfjunni en það gerðist síðast í mars árið 2008. Því vilja Njarðvíkingar sjálfsagt breyta en ljóst er að Grindvíkingum líður nokkuð vel í Njarðvík. Búast má við hörku leik en síðasta rimma var spennandi og skemmtileg.