Íþróttaskóli barna vinsæll í Vogum
Ungmennafélagið Þróttur byrjaði í haust með íþróttaskóla á laugardögum fyrir börn á aldrinum tveggja til fimm ára.
Að sögn Marteins Ægissonar framkvæmdastjóra Þróttar þá hefur íþróttaskólinn farið vel af stað í vetur og eru í kringum tuttugu börn skráð í hann.
„Það er mikið líf í Vogabæjarhöllinni á laugardögum og má segja að bæjarhjartað sé hér á laugardögum því á sama tíma eru fjölmargir aðrir gestir að nýta sér þjónustu í íþróttahúsinu. Einnig er öflugt getraunastarf Þróttar í gangi á sama tíma.
Bryndís Björk og Hólmfríður Sigrún eru leiðbeinendur á námskeiðinu en þær hafa sýnt mikinn metnað og haldið vel utan um íþróttaskólann í vetur. „Þær hafa slegið í gegn hjá foreldrum sem hafa nýtt sér þessa þjónustu og hafa foreldrar frá öðrum sveitarfélögum í kringum okkur einnig komið með sín börn hingað á laugardögum.“
Martein vill einnig koma því á framfæri að það séu enn laus pláss í skólanum og hægt er að nálgast frekari upplýsingar á heimasíðu félagsins eða Facebook síðu ungmennafélagsins Þróttar. Allir eru velkomnir í íþróttaskólann, hvort sem þú býrð í Vogum eða ekki.