Íþróttamiðstöð Grindavíkur í mótun
Framkvæmdir eru nú hafnar við fyrsta áfanga í framtíðaruppbyggingu á íþróttasvæði Grindavíkur. Nýbyggingin mun verða „Íþróttamiðstöð Grindavíkur“ um 1.730m², á einni hæð. Hér verður gert grein fyrir því hvað felst í þessum fyrsta áfanga og þeim sem á eftir koma.
Nokkrar byggingar sameinaðar á einn stað
Í þessum fyrsta áfanga verður að finna aðstöðu sem tengir saman nokkrar núverandi byggingar. Í upphaflegri áætlun var gert ráð fyrir að fyrsti áfangi yrði stækkun íþróttahússins en framkvæmdaröðuninni var breytt þar sem sýnt þótti að meiri þörf væri á því að hafa nóg af búningsklefum og sameiginlegri aðstöðu áður en til stækkunar íþróttahússins kæmi enda mun stækkun íþróttahússins kalla á að til sé aðstaða til að taka við þeirri fjölgun iðkenda sem gert er ráð fyrir að muni skila sér þegar framkvæmdum verður lokið.
Tveir stórir klefar í stað fjögurra minni
Á lokastigum hönnunar var tekin ákvörðun um að breyta búningsklefunum sem eru næst knattspyrnuvellinum og gera tvo stóra klefa í stað fjögurra minni klefa. Þessi breyting eykur enn á fjölbreytileika starfseminnar og gefur t.d. knattspyrnuiðkendum meiri sveigjanleika á nýtingu klefa t.d. í tengslum við æfingar og/eða mótahald allra flokka.
Bætt aðstaða
Með endurskipulagningu og nýbyggingum á íþróttasvæði Grindavíkur er áætlað að bæta verulega aðstöðu til íþróttaiðkunar, keppn-ishalds og félagsstarfs í Grindavík. Í hönnun aðstöðunnar er tekið tillit til mismunandi þarfa ólíkra íþróttagreina, skólastarfs, starfsmanna og gesta án þess að það komi niður á fjölnota möguleikum byggingarinnar.
Í meginhlutum er hægt að skipta byggingunni upp í tvo húshluta:
• A - Forsalur með afgreiðslu og starfsmannakjarna, búningsklefar sem þjóna íþróttasal, knattspyrnuvelli og sundlaug ásamt tengigangi að núverandi sundlaugarbyggingu.
• B - Samkomusalur með móttökueldhúsi og skrifstofur sem tengjast íþróttafélögunum og Kvenfélagi Grindavíkur.
Opin bygging
Meginhugmynd byggingarinnar er opin bygging, sem í hinu ytra endurspeglar þá líflegu starfsemi sem þar fer fram. Eitt af því sem stendur starfi íþróttahreyfingarinnar í Grindavík fyrir þrifum er aðstöðuleysi fyrir hið almenna félagsstarf og skrifstofuhúsnæði. Með þessari hönnun er gert ráð fyrir nýrri sameiginlegri félagsaðstöðu fyrir allar deildir UMFG. Staðsetningu á henni er þannig fyrir komið að félagsmenn og iðkendur allra deilda munu eiga greiðan aðgang að henni.
Fjölnota salur
Gert er ráð fyrir sal upp á 270 m2 sem hægt verður, til lengri tíma litið, að skipta í tvennt og jafnframt 30 m2 móttökueldhúsi. Með þessum sal skapast mikl-ir möguleikar t.d. í tengslum við kappleiki bæði í knattspyrnu og körfuknattleik eða hverju öðru mótahaldi sem fram fer í íþróttamiðstöðinni eða á íþróttasvæðinu. Þessi stærð af sal býður líka upp á möguleika fyrir smærri samkomur t.d. herra- eða konukvöld. Einnig er hægt að nýta salinn undir t.d. danskennslu, eða þjálfun minni hópa í fimleikum, júdó eða taekwondó eða jafnvel til útleigu fyrir jógakennslu eða sambærilegrar þjálfunar. Fundaraðstaða allra deilda UMFG mun stórbatna og geta nú verið nokkrir fundir í byggingunni á sama tíma.
Frekari framkvæmdir
Árið 2015 hefjast framkvæmdir við áfanga 3 og 4, þ.e. breyting á núverandi klefum íþróttahúss í æfingarými fyrir júdó og taekwondó og breyting á núverandi sundlaugarhúsi í líkamsrækt. Að lokum verður farið í stækkun íþróttahússins og gera áætlanir ráð fyrir að öllum þessum framkvæmdum verði lokið 2016. Þegar þessum framkvæmdum er lokið verður íþróttaaðstaða Grindvíkinga með þeim betri á landinu sé tekið tillit til íbúafjölda.